Fara í efni
Handknattleikur

Apríl er mánuður úrslitakeppnanna

Íþróttaunnendur hafa úr nægu framboði kappleikja að velja næstu daga, hvort sem ætlunin er að sækja leiki á Akureyri eða suðvesturhorninu.

Fimm eða sex Akureyrarlið eiga heimaleiki í dag og næstu daga. Karlalið Þórs í körfubolta heldur áfram í umspili 1. deildar, kvennalið Þórs í körfubolta hefur leik í átta liða úrslitunum á morgun, kvennalið KA í blaki hefur leik í undanúrslitum Íslandsmótsins á miðvikudag og á fimmtudag hefur karlalið Þórs í knattspyrnu hefur leik í bikarkeppninni og karlalið KA í blaki hefur leik í undanúrslitum Íslandsmótsins.

Sjötta liðið gæti svo verið karlalið SA í íshokkí, en enn er óvissa um úrslitakeppni íshokkíkarlanna, sem átti að hefjast laugardaginn 29. mars, en var af stjórn ÍHÍ frestað um viku vegna meðferðar kærumála fyrir dómstólum ÍSÍ. Mögulega verður fyrsti leikur í úrslitaeinvíginu á laugardag, en í það minnsta er klárt að SA hefur leik á heimavelli, hvenær sem það verður og hvort það verður á móti SR eða Fjölni.

MÁNUDAGUR  körfubolti

Umspil liðanna í 2.-9. sæti í 1. deild karla í körfuknattleik hófst á föstudag. Efsta lið deildarinnar, ÍA, fer beint upp í Bónusdeildina en liðin í 2.-9. sæti eru í umspili um hitt lausa sætið. Þórsarar enduðu í 6. sæti deildarinnar og mæta Fjölni, sem endaði í 5. sætinu. Í deildarkeppninni í vetur unnu liðin hvort sinn leik og það á útivelli, bæði með nokkrum mun. Þór vann í Grafarvoginum í desember, en Fjölnir vann á Akureyri í mars.

Fyrsti leikur einvígisins fór fram á heimavelli Fjölnis á föstudagskvöld og máttu Þórsarar þola stórt tap, en í dag er komið að öðrum leik einvígisins.

  • 1. deild karla í körfuknattleik – umspil 2.-9. – leikur 2
    Íþróttahöllin á Akureyri kl. 19:15
    Þór - Fjölnir

Þriðji leikur liðanna verður í Grafarvoginum föstudaginn 4. apríl og svo ef þarf, þriðjudaginn 8. apríl á Akureyri og laugardaginn 12. apríl í Grafarvoginum. Sigurliðið úr einvígi Þórs og Fjölnis mætir sigurliðinu úr einvígi Ármanns og Selfoss. Vinna þarf þrjá leiki til að fara áfram í næstu umferð.

ÞRIÐJUDAGUR  körfubolti

Úrslitakeppnin í Bónusdeild kvenna er að hefjast og taka Þórsarar á móti Val í fyrsta leik liðanna í átta liða úrslitunum. Félögin unnu hvort sinn leik í sjálfri deildarkeppninni fyrir tvískiptingu. Valur vann með fimm stiga mun á sínum heimavelli í byrjun október, en Þór svaraði með fimm stiga sigri á Akureyri í desember. Þór vann svo leik liðanna í A-hluta deildarinnar í byrjun mars með sex stiga mun á Akureyri. Það má því búast við jöfnu og spennandi einvígi liðanna á næstu dögum.

  • Bónusdeild kvenna í körfuknattleik – átta liða úrslit – leikur 1
    Íþróttahöllin á Akureyri kl. 18:30
    Þór - Valur

Næstu leikir verða síðan laugardaginn 5. apríl í Reykjavík, miðvikudaginn 9. apríl á Akureyri og svo ef þarf, sunnudaginn 13. apríl í Reykjavík og miðvikudaginn 16. apríl á Akureyri. Vinna þarf þrjá leiki til að fara áfram í undanúrslit Íslandsmótsins. Sigurlið einvígisins mætir sigurliðinu úr einvígi deildarmeistara Hauka og Grindavíkur. 

MIÐVIKUDAGUR  blak

Úrslitakeppni Íslandsmótsins í blaki kvenna, Unbroken-deildarinnar, hefst miðvikudaginn 2. apríl. Fjögur efstu lið deildarinnar fara í úrslitakeppnina. Deildarmeistarar KA taka á móti HK í fyrsta leik, en hitt einvígið er á milli Völsungs og Aftureldingar, sem mætast sömu daga. Sigurlið þessara einvígja berjast svo um Íslandsmeistaratitilinn.

  • Unbroken-deild kvenna í blaki – undanúrslit – leikur 1
    KA-heimilið kl. 20
    KA - HK

KA og HK mættust þrisvar í deildarkeppninni í vetur og einu sinni í bikarkeppninni og vann KA allar viðureignirnar.

Annar leikur liðanna fer fram á laugardag á heimavelli HK. Vinna þarf tvo leiki til að komast áfram í úrslitaeinvígið. Þriðji leikur, ef á þarf að halda, er á dagskrá þriðjudaginn 8. apríl.

FIMMTUDAGUR  fótbolti og blak

Bikarkeppni karla í knattspyrnu, Mjólkurbikarinn, hófst um liðna helgi og verður haldið áfram núna í vikunni. Þórsarar hefja leik í Boganum á fimmtudagskvöld þegar þeir taka á móti liði Magna frá Grenivík. Magni mætti Kormáki/Hvöt í Boganum í 1. umferðinni og hafði betur eftir framlengingu, 4-2, eftir að staðan var 2-2 að loknum 90 mínútum.

  • Mjólkurbikarkeppni karla í knattspyrnu – 2. umferð
    Boginn kl. 19
    Þór - Magni

Sigurliðið í leik Þórs og Magna fer áfram í 32ja liða úrslit bikarkeppninnar sem spiluð verða 17. og 19. apríl, skírdag og laugardag fyrir páska.

- - -

Deildarmeistarar KA í blaki karla hefja leik í undanúrslitum Íslandsmótsins, Unbroken-deildarinnar, á fimmtudag þegar þeir taka á móti liði Aftureldingar. Fjögur lið fara í úrslitakeppnina, en hin viðureignin er á milli Þróttar R. og Hamars, sem spila sömu daga.

  • Unbroken-deild karla í blaki – undanúrslit – leikur 1
    KA-heimilið kl. 20
    KA Afturelding 

KA vann allar þrjár viðureignir þessara liða í deildarkeppninni í vetur sem og í bikarkeppninni. 

Annar leikur í einvíginu er á dagskrá í Mosfellsbænum sunnudaginn 6. apríl og sá þriðji, ef þarf, miðvikudaginn 9. apríl. Vinna þarf tvo leiki til að fara áfram í úrslitaeinvigið um Íslandsmeistaratitilinn.

FÖSTUDAGUR  körfubolti

Þriðji leikur í einvígi Þórs og Fjölnis í umspili 1. deildar karla í körfuknattleik. 

  • 1. deild karla í körfuknattleik – umspil 2.-9. – leikur 3
    Dalhús í Grafarvogi kl. 19:15
    Fjölnir - Þór

LAUGARDAGUR  blak, körfubolti og íshokkí

Annar leikur í einvígi KA og HK í úrslitum Íslandsmóts kvenna í blaki verður spilaður í Digranesinu í Kópavogi á laugardag. 

  • Unbroken-deild kvenna í blaki – undanúrslit – leikur 2
    Digranes í Kópavogi kl. 15
    HK - KA

- - -

Annar leikur í einvígi Þórs og Vals í úrslitakeppni Íslandsmóts kvenna í körfuknattleik, Bónusdeildarinnar, verður spilaður í Valsheimilinu að Hlíðarenda á laugardaginn kemur. 

  • Bónusdeild kvenna í körfuknattleik – átta liða úrslit – leikur 2
    Valsheimilið að Hlíðarenda kl. 19:15
    Valur - Þór

- - -

Eins og fram hefur komið í fréttum akureyri.net er óvissa um úrslitakeppni Íslandsmóts karla í íshokkí, Toppdeildarinnar, eftir að dómstóll ÍSÍ dæmdi í kærumáli Fjölnis vegna leiks SR og SA í febrúar, þar sem niðurstaðan var að SR var dæmt tap í leiknum. Það þýðir að Fjölnir og SR yrðu jöfn að stigum, en Fjölnir með betri markamun og tæki því sæti SR í úrslitaeinvíginu. 

Upphaflega átti úrslitakeppni karla að hefjast síðastliðinn laugardag, 29. mars, en stjórn ÍHÍ ákvað að fresta henni um eina viku á meðan beðið er niðurstöðu áfrýjunardómstóls ÍSÍ eftir að SR skaut niðurstöðu dómstóls áfram til áfrýjunardómstólsins.

  • Toppdeild karla í íshokkí – úrslitaeinvígi – leikur 1
    Skautahöllin á Akureyri
    SA - SR/Fjölnir

SUNNUDAGUR  blak

Annar leikur í undanúrslitaeinvígi KA og Aftureldingar í Íslandsmóti karla í blaki verður spilaður í íþróttahúsinu að Varmá í Mosfellsbæ á sunnudag.

  • Unbroken-deild karla í blaki – undanúrslit – leikur 2
    Varmá í Mosfellsbæ kl. 14
    Afturelding - KA