Fara í efni
Handknattleikur

Þórsarar og Haukarnir ungu deildu stigunum

Arnór Þorri Þorsteinsson fór hamförum í kvöld og gerði 15 mörk fyrir Þór. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Þór og ungmennalið Hauka skiptu með sér stigunum í kvöld þegar þau skildu jöfn, 33:33, í Grill 66 deildinni, næst efstu deild Íslandsmótsins í handbolta. Boðið var upp á æsispennandi leik í Íþróttahöllinni á Akureyri.

Haukar náðu fljótlega forystu og voru tveimur til þremur mörkum á undan heimamönnum lengi vel í fyrri hálfleik. Munurinn varð reyndar mestur fjögur mörk, 15:11, þegar 20 mínútur voru búnar en þá gerðu Þórsarar fjögur mörk í röð og voru svo komnir einu marki yfir þegar flautað var til hálfleiks, 18:17.

Seinni hálfleikur var jafn og skemmtilegur, Þórsarar skrefi á undan lengstum en þegar 10 mínútur voru eftir snerist dæmið við; Haukar voru þá komnir tveimur mörkum yfir aftur, 28:26, en það var Arnór Þorri Þorsteinsson sem jafnaði á ný, 32:32, þegar hálf önnur mínúta var eftir. Arnór Þorri fór hamförum í kvöld og gerði 15 mörk. Skyndilega hyllti svo undir sigur heimamanna þegar Brynjar Hólm Grétarsson náði forystunni á síðustu mínútu en gestirnir neituðu að játa sig sigraða og jöfnuðu í blálokin. 

Mörk Þórs: Arnór Þorri Þorsteinsson 15, Halldór Kristinn Harðarson 7, Brynjar Hólm Grétarsson 6, Garðar Már Jónsson 1, Friðrik Svavarsson 1, Sveinn Aron Sveinsson 1, Sigurður Ringsted Sigurðsson 1, Aron Hólm Kristjánsson.

Varin skot: Bjarki Símonarson 10, Kristján Páll Steinsson 5 (samtals 31,3%). 

Ungmennalið Fram er enn efst með 22 stig, en getur ekki unnið sér sæti í efstu deild eins og áður hefur komið fram, frekar en ungmennalið annarra félaga sem þegar eiga lið í deildinni. Þór og ÍR eru með 16 stig en ÍR á leik til góða.

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna.