Fara í efni
Handknattleikur

Þórsarar á toppinn með fjórða sigrinum í röð

Kristján Páll Steinsson var öflugur í marki Þórs í kvöld, varði 18 skot og skoraði að auki tvö mörk. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Þórsarar unnu sinn fjórða sigur í næstefstu deild Íslandsmótsins í handbolta, Grill 66 deild karla, þegar þeir mættu ungmennaliði Hauka í Hafnarfirðinum í kvöld og tylltu sér á topp deildarinnar með átta stig. Kristján Páll Steinsson var öflugur í marki Þórs, varði 18 skot og skoraði að auki tvö mörk. Brynjar Hólm Grétarsson var markahæstur Þórsara með fimm mörk, en að öðru leyti skiptu þeir markaskorun nokkuð jafnt á milli sín.

Það varð fljótlega ljóst í hvað stefndi eftir að Þórsarar skoruðu þrjú fyrstu mörk leiksins og létu raunar forystuna aldrei af hendi eftir það. Þórsarar náðu fimm marka forskoti eftir um tíu mínútna leik og héldu því meira og minna út fyrri hálfleikinn og náðu sjö marka forystu, staðan 12-19 Þór í vil eftir fyrri hálfleikinn. Þessu forskoti héldu þeir að mestu út leikinn þó heimamenn næðu að minnka muninn í fjögur mörk um tíma. Munurinn sex mörk þegar upp var staðið, 29-35 Þór í vil.

Þetta var fjórði sigur Þórsara í röð eftir að þeir töpuðu fyrsta leiknum í deildinni og er liðið nú á toppi deildarinnar með átta stig úr fimm leikjum. Helstu keppinautar Þórsara, Víkingar og ungmennalið Framara, eigast við á sunnudaginn.

Haukar-U:

Mörk: Daníel Máni Sigurgeirsson 7, Ísak Óli Eggertsson 7, Ágeir Bragi Þórðarson 5, Arnór Róbertsson 3, Bjarki Már Ingvarsson 2, Sigurður Bjarmi Árnason 2, Aron Ingi Hreiðarsosn 1, Helgi Marinó Kristófersson 1, Jónsteinn Helgi Þórsson 1.
Varin skot: Ari Dignus Maríusson 4, Jákup Müller 2, Birnir Hergilsson 3.
Refsimínútur: 4.

Þór

Mörk: Brynjar Hólm Grétarsson 5, Arnór Þorri Þorsteinsson 4, Bergvin Þór Gíslason 4, Þórður Tandri Ágústsson 4, Oddur Gretarsson 3, Aron Hólm Kristjánsson 2, Hafþór Már Vignisson 2, Halldór Kristinn Harðarson 2, Kristján Páll Steinsson 2, Leó Friðriksson 2, Þormar Sigurðsson 2, Heiðmar Örn Björgvinsson 1, Ólafur Malmquist 1, Sigurður Ringsted Sigurðsson 1.
Varin skot: Kristján Páll Steinsson 18, Steinar Ingi Árnason 1.
Refsimínútur: 8.

Næsti leikur Þórsara verður laugardaginn 26. október, fyrsta vetrardag, þegar þeir taka á móti liði Harðar frá Ísafirði.