Handknattleikur
Þór og Fjölnir mætast í Reykjavík í kvöld
26.04.2024 kl. 15:51
Brynjar Hólm Grétarsson á flugi í sigurleiknum gegn Fjölni í Höllinni. Hann á væntanlega eftir að bjóða upp á nokkra þrumufleyga í kvöld. Mynd: Skapti Hallgrímsson
Þriðja viðureign Þórs og Fjölnis í úrslitaeinvíginu um sæti í Olísdeildinni í handbolta fer fram í kvöld í Egilshöllinni í Reykjavík. Flautað verður til leiks kl. 19.30.
Fjölnir vann fyrsta leik einvígisins fyrir sunnan eftir framlengingu en Þórsarar svöruðu með öruggum sigri í Höllinni á Akureyri. Liðið sem vinnur þrjá leiki fer upp í Olís deildina, efstu deild Íslandsmótsins. Fjölnir endaði ofar í deildinni og fær því fimmta leikinn á heimavelli ef til hans kemur. Því er ljóst að til að komast upp þurfa Þórsarar að vinna að minnsta kosti einn leik í Reykjavík.
Skemmtileg stemning var á leiknum í Höllinni á dögunum. Rúta með stuðningsmenn Þórs er á leið til Reykjavíkur og því má reikna með fjöri á áhorfendapöllunum á nýjan leik í kvöld.