Fara í efni
Handknattleikur

Þægilegur sigur Þórs á ungu Valsliði

Oddur Gretarsson skorar eftir hraðaupphlaup í kvöld. Hann gerði sjö mörk í leiknum. Myndir: Skapti Hallgrímsson

Þór vann Val2 í kvöld með fimm marka mun, 32:27, í Grill66 deildinni í handbolta, næst efstu deild Íslandsmótsins. Þetta var fyrsti heimaleikur Þórsara í vetur og annar leikur þeirra í deildinni.

Þórsarar tóku frumkvæðið snemma leiks, voru fjórum til fimm mörkum yfir megnið af fyrri hálfleik og að honum loknum munaði fjórum mörkum. Staðan þá 16:12. 

Munurinn jókst hægt og rólega í seinni hálfleik og varð mestur 10 mörk, 30:20 og 31:21, þegar um 10 mínútur voru eftir. Þá greip um sig kæruleysi hjá Þórsurum, þeir linuðu tökin verulega og Valsmenn gerðu sjö mörk gegn aðeins tveimur mörkum heimamanna á lokakaflanum. Sigurinn var aldrei í hættu og býsna þægilegur þrátt fyrir allt en algjör óþarfi var að bjóða Valsmönnunum ungu upp í slíkan dans. 

Gaman var að sjá gömlu Þórsarana sem komnir eru heim á ný, ekki síst Odd Gretarsson sem tók í kvöld þátt í fyrsta heimaleiknum á Íslandsmóti með Þór síðan vorið 2013. Margt býr í leikmannahópnum, augljóslega á eftir að fínpússa ýmislegt miðað við frammistöðuna í kvöld en spennandi verður að fylgjast með Þórsliðinu í vetur.

Þórður Tandri Ágústsson var öflugur í vörn og gerði sjö mörk í fyrsta heimaleiknum með Þór í nokkur ár.

Mörk Þórs: Oddur Gretarsson 7, Þórður Tandri Ágústsson 7, Brynjar Hólm Grétarsson 6, Garðar Már Jónsson 3, Hafþór Már Vignisson 3, Aron Hólm Kristjánsson 2, Arnór Þorri Þorsteinsson 2, Kristján Gunnþórsson 1, Sigurður Ringsted Sigurðsson 1.

Varin skot: Kristján Páll Steinsson 17, Tristan Ylur Guðjónsson 4.

Mörk Vals2: Atli Hrafn Bernburg 6, Daníel Örn Guðmundsson 5, Dagur Leó Fannarsson 5, Gunnar Róbertsson 5, Knútur Gauti Kruger 2, Bjarki Snorrason 2,  Hlynur Freyr Geirmundsson 1, Þorvaldur Örn Þorvaldsson 1.

Varin skot: Jens Sigurðarson 7, Hilmar Már Ingason 4.

Tölfræðin og gangur leiksins