Fara í efni
Handknattleikur

Ótrúlega svekktur, töpuðum á smáatriðum

Einkennandi mynd fyrir baráttu KA-manna í kvöld! Einar Birgir Stefánsson, Ólafur Gústafsson og Einar Rafn Eiðsson reyna hvað þeir geta til að stöðva Aron Pálmarsson. Mynd: J.L.Long

KA-menn töpuðu að vísu fyrir FH-ingum í Hafnarfirði kvöld, 30:28, í fyrstu umferð úrslitakeppni Olís deildarinnar í handbolta, en frammistaðan ætti að fylla stuðningsmenn KA bjartsýni. Viðsnúningurinn frá leik liðanna á sama stað í síðustu viku, í lokaumferð deildarkeppninnar, var ótrúlegur.

Vinna þarf tvo leiki til að komast í undanúrslit og deildarmeistarar FH eru eðlilega taldir sigurstranglegri. En leikmenn KA og stuðningsmenn ættu að mæta vel stemmdir þegar FH-ingar koma í KA-heimilið á sunnudaginn enda verður þá að duga eða drepast.

„Ótrúlega svekktur,“ sagði Halldór Stefán Haraldsson þjálfari KA í viðtali á Instagram reikningi handboltadeildar félagsins í kvöld. „Mér fannst við tapa á smáatriðum, munurinn á liðunum var lítill í dag. Ég er stoltur af mínum mönnum að koma til baka eftir að hafa lent undir í byrjun seinni hálfleiks. Þetta var spegilmynd af síðasta leik en í stað þess að brotna saman komum við aftur til baka.“

Fyrir viku hafði KA eins marks forskot að loknum fyrri hálfleik en þann seinni vann FH 19:8 og leikinn því með 10 marka mun! KA-menn voru eðlilega staðráðnir í að upplifa ekki þá martröð aftur

FH-ingar höfðu eins marks forskot, 15:14, eftir jafnan fyrri hálfleik í kvöld. Hafnfirðingar byrjuðu þann seinni af miklum krafti, gerðu fyrstu þrjú mörkin, en KA-strákarnir lögðu ekki árar í bát heldur börðust eins og ljón allt til enda. KA jafnaði einu sinni, 22:22, en annars var FH skrefi á undan.

Einar Rafn Eiðsson gerði 8 mörk fyrir KA, þar af 3 af vítalínunni, og Ólafur Gústafsson gerði 6. Smellið hér til að sjá alla tölfræðina.

 Halldór Stefán Haraldsson þjálfari KA var ánægður með sína menn í kvöld. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson