Handknattleikur
Oddur framlengir samning við Balingen
26.02.2021 kl. 12:25
Oddur Gretarsson, landsliðsmaður í handbolta, hefur gert nýjan samning við Balingen - Weilstetten í Þýskalandi. Oddur var samningsbundinn út þessa leiktíð en nú er ljóst að hann verður með félaginu næsta vetur. Þórsarinn hefur verið á mála hjá félaginu síðan sumarið 2017 og verið með markahæstu mönnum liðsins. Hann hefur gert 64 mörk í 17 leikjum í þýsku deildinni í vetur.
Jens Bürkle, þjálfari Balingen - Weilstetten, lýsti í morgun yfir mikilli ánægju með þá ákvörðun Odds að vera áfram. Hann segir, í frétt á heimasíðu félagsins, að Oddur hafi leikið stórt hlutverk síðustu ár og standi sig jafnan gríðarlega vel; stígi varla feilspor í leikjum liðsins.