Fara í efni
Handknattleikur

Norsk skytta gengin til liðs við KA/Þór

Susanne Denise Pettersen, 27 ára norsk, rétthent skytta, hefur skrifað undir tveggja ára samning við kvennalið KA/Þórs í handbolta. Hún kemur frá norska liðinu Pors. KA/Þór féll í vor úr Olís deildinni, efstu deild Íslandsmótsins, og leikur því í þeirri næst efstu á komandi vetri.

„Við vorum að leita eftir leikmanni með reynslu sem getur bæði bætt leik okkar og miðlað og haft jákvæð áhrif á okkar yngri menn,“ sagði Jónatan Magnússon, þjálfari KA/Þórs, við Akureyri.net í gær.

„Þegar við hófum samtalið við leikmanninn þá passaði það sem við erum að gera vel við hennar pælingar. Hún er á þeim stað að vilja prófa nýjar áskoranir og fannst spennandi að koma norður í blíðuna!“ sagði Jónatan.

Á vef KA segir: „Susanne hefur farið mikinn með liði Pors undanfarin tíu ár þar sem hún hefur leikið í norsku 1. og 2. deildinni með liðinu og var hún meðal annars næstmarkahæst í 2. deildinni á síðustu leiktíð. Hún hefur leikið með aðalliði Pors frá árinu 2014 ef frá er talinn veturinn 2020-2021 þar sem hún lék með liði Grane í 1. deildinni. Þá var hún hluti af yngri landsliðum Noregs á sínum tíma.“

Þar segir ennfremur: „Það verður afar spennandi að fá þessa öflugu og reynslumiklu skyttu í lið okkar en á komandi vetri er lagt upp með að byggja upp öflugan kjarna af ungum og uppöldum leikmönnum og er það afar sterkt að fá inn sterkan utanaðkomandi leikmann til að miðla af sinni reynslu.“