Fara í efni
Handknattleikur

Nágrannaslagur: Þór tekur á móti KA í dag

Garðar Már Jónsson, fyrirliði Þórs, og Andri Snær Stefánsson, KA-maður, eftir bikarleikinn á dögunum. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Þórsarar taka á móti KA-mönnum í íþróttahöllinni í dag, í Olís deild Íslandsmótsins í handbolta. Flautað verður til leiks klukkan 16.00.

Leikurinn er vitaskuld mikilvægur eins og aðrir, enda hart barist um stigin – Þórsarar eru næst neðstir í deildinni sem stendur, með fjögur stig eftir 10 leiki, en KA-menn í áttunda sæti með 10 stig eftir níu leiki og tvö stig báðum bráðnauðsynleg. Þau eru þó ekki það eina sem mun í húfi; nágrannaslagur er ætíð sagður hafa enn meira vægi en aðrar viðureignir, því sigur færi leikmönnum og áhangendum „montrétt“ í bænum um tíma...  

Liðin mættust í bikarkeppninni á dögunum og þá höfðu KA-menn betur, 26:23, í skemmtilegum og spennandi leik. Öruggt mál er að ekkert verður gefið eftir í dag, enginn er annars bróðir í leik, en eftir lokaflautið verða vonandi allir kurteisir og prúðir eftir drengilega baráttu, eins og eftir bikarleikinn.

Áhorfendur eru ekki leyfðir vegna sóttvarnarreglna en leikurinn verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

Akureyri.net verður að sjálfsögðu á staðnum og færir lesendum frásögn og myndasyrpu.

Myndasyrpa úr bikarleiknum