Fara í efni
Handknattleikur

Lítið æft í vikunni en þeim mun meira keppt!

Jón Heiðar Sigurðsson leggur af stað í sókn eftir að Satchwell hinn færeyski varði frá Haukamanninum. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

KA tekur á móti Stjörnunni í Olísdeild Íslandsmótsins í handbolta í kvöld. KA-menn eru með 15 stig eftir 13 leiki og í sjöunda sæti deildarinnar, Stjarnan er stigi á eftir, en hefur spilað 14 leiki. KA á tvo leiki til góða á öll liðin sem eru ofar á töflunni og með sigri í þeim báðum gæti liðið komst upp fyrir Val og í fjórða sætið.

„Það eru allir spenntir og við búum okkur undir hörkuleik,“ sagði Jónatan Magnússon, þjálfari KA, við Akureyri.net í morgun. „Þetta er fyrsti leikur af þremur í þessari viku, svo nú er það bara að spenna beltin og setja upp hanskana! Það verður lítið æft í þessari viku, en þeim mun meira keppt,“ sagði Jónatan.

Stjarnan tapaði síðasta leik með eins marks mun fyrir Haukum í síðustu viku en KA hefur ekki leikið í deildinni síðan Selfsyssingar komu í heimsókn 5. mars. Þeim leik lauk með jafntefli.

Allir leikmenn KA eru sagðir klárir í slaginn, þannig að gera má ráð fyrir að Ólafur Gústafsson verði loks með á ný eftir nokkurra leikja hvíld vegna meiðsla.

Nokkrir góðkunningjar akureyrskra handboltaáhugamanna eru í herbúðum Stjörnunnar; fyrstan ber að nefna hornamanninn snjalla Dag Gautason, sem fór frá KA í Garðabæinn fyrir veturinn. Þjálfari Garðbæinga er Patrekur Jóhannesson, einn af lykilmönnum KA á gullaldarárunum og með Stjörnunni leika tveir Þórsarar, Hafþór Már Vignisson og Brynjar Hólm Grétarsson.

Leikurinn hefst klukkan 18.00. Miðasala fer fram í gegnum söluappið Stubb en aðeins eru 142 miðar í boði vegna sóttvarnarreglna. Á heimasíðu KA kemur fram að þeir sem ómögulega geta nýtt sér Stubb appið eða eru í vandræðum geti keypt miða í KA-heimilinu frá klukkan 16.00. Þeir sem eiga ársmiða eru vinsamlegast beðnir um að senda línu á agust@ka.is ef þeir eru í vandræðum að fá upp sinn miða í appinu.

Húsið opnar 17.15 og eru allir beðnir um að mæta snemma því það þarf að skrá hvern einstakling í númerað sæti. Fullorðnum ber að nota grímu í stúkunni.

Smelltu hér til að horfa á leikinn í beinni útsendingu KA-manna.

Næstu leikir KA:

  • Haukar - KA fimmtudaginn 25. mars klukkan 18.30
  • Afturelding - KA sunnudaginn 28. mars klukkan 16.00