Fara í efni
Handknattleikur

KA/Þór tapaði með 10 marka mun fyrir Fram

Arna Valgerður Erlingsdóttir þjálfari KA/Þórs. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

KA/Þór tapaði 28:18 fyrir Fram  í KA-heimilinu í dag efstu deild Íslandsmótsins í handbolta, Olísdeildeildinni. 

Stelpurnar okkar hafa verið í mótbyr í vetur og eru í neðsta sæti með fimm stig. Þær hafa unnið tvo leiki í deildinni í vetur, annar þeirra var gegn Fram í Reykjavík og ljóst að gestirnir ætluðu sér ekki að þurfa að kyngja öðru tapi gegn Akureyringum í vetur. Leikurinn var að vísu jafn fram í miðjan fyrri hálfleik en þegar staðan var 5:5 gerðu Framarar sex mörk í röð. KA/Þór náði að laga stöðuna og í hálfleik var munurinn þrjú mörk, 12:9.

Í seinni hálfleik var aldrei spurning hver niðurstaðan yrði. Framarar náðu mest 12 marka forystu og 10 mörkum munaði í lokin sem fyrr segir.

Mörk KA/Þórs: Nathalia Soares Baliana 7, Lydía Gunnþórsdóttir 4 (öll úr víti), Aþena Sif Einvarðsdóttir 2, Anna Þyrí Halldórsdóttir 2, Rafaele Nascimento Fraga 2, Sólveig Lára Kristjánsdóttir 1.

Varin skot: Matea Lonac 14 (33,3%).

Smellið hér til að sjá alla tölfræðina.