Fara í efni
Handknattleikur

KA/Þór vann deildina og fer beint upp

Leikmenn KA/Þórs fagna. Myndini er úr safni, en nánar verður fjallað um leikinn síðar í dag. Mynd: Skapti Hallgrímsson.

KA/Þór tryggði sér í dag deildarmeistaratitilinn í Grill 66 deild kvenna og þar með sæti í Olísdeildinni á næsta tímabili með öruggum sigri á FH í Kaplakrika. Liðið er taplaust enn sem komið er, hefur unnið 13 leiki af 15 og aðeins gert tvö jafntefli. KA/Þór er á toppi deildarinnar með 28 stig, en HK kemur næst með 22 stig, þegar bæði liðin eiga eftir þrjá leiki.

Það var eiginlega aldrei spurning í leiknum í dag hvort liðið færi með sigur af hólmi. KA/Þór hafði tíu marka forskot í leikhléi, 16-6, og sigldi sigrinum í örugga höfn í seinni háfleiknum, munurinn á endanum 11 mörk.

Eftir úrslitin í leik Víkings og Aftureldingar í gærkvöld var ljóst að með sigri í dag myndi KA/Þór tryggja sér deildarmeistaratitilinn og þar með sæti í Olísdeildinni á næsta tímabili. Afturelding var eina liðið sem gat ógnað þeirri niðurstöðu, en liðið tapaði fyrir Víking í gær. Eftir tap Aftureldingar og sigur KA/Þórs í dag var ljóst að HK væri eina liðið sem gæti náð KA/Þór að stigum – ef allt færi úrskeiðis hjá KA/Þór í þeim leikjum sem eftir eru – en það myndi þó ekki duga HK því KA/Þór er með betri árangur í innbyrðis viðureignum liðanna.

Akureyri.net óskar KA/Þór, leikmönnum, þjálfurum og aðstandendum, innilega til hamingju með endurnýjað sæti í efstu deild!