Smellið hér til að sjá alla tölfræði úr leiknum.
KA tapaði fyrir Fram í 80 marka leik
Leikmenn handboltaliða KA og Fram voru í jólaskapi í dag, þegar sóknarleikurinn var annars vegar, en vörnin var ekki höfð í hávegum í þessum síðasta leik liðanna á Íslandsmótinu á þessu ári. Hvorki meira né minna en 80 mörk voru skoruð þegar liðin mættust á heimavelli Fram í Úlfarsárdal og heimamenn unnu 42:38.
Fyrri hálfleikurinn var jafn og Framarar höfðu eins marks forskot að honum loknum, 20:19. Jafnræði var áfram með liðunum lengi vel í seinni hálfleik, mörkunum rigndi og bláu og hvítu droparnir urðu ögn fleiri en þeir bláu og gulu. KA-menn urðu því að sætta sig við þriðja tapið í röð í deildinni og verða í áttunda sæti með 10 stig um áramótin.
Mörk KA: Einar Rafn Eiðsson 14 (6 víti), Skarphéðinn Ívar Einarsson 6, Ott Varik 5, Jóhann Geir Sævarsson 3, Patrekur Stefánsson 2, Jens Bragi Bergþórsson 2, Einar Birgir Stefánsson 2, Hugi Elmarsson 2, Magnús Dagur Jónatansson 1, Ólafur Gústafsson 1.
Varin skot: Bruno Bernat 12 (30%), Nicolai Kristensen 5 (26,3%).