KA-menn urðu loks að játa sig sigraða
KA tapaði fyrir Fram, 26:22, í Olísdeild Íslandsmóts karla í handbolta í Reykjavík í dag. Eftir þrjá sigra og eitt jafntefli í síðustu fjórum leikjum urðu KA-menn loks að játa sig sigraða.
Það var það ekki síst vegna frábærrar frammistöðu Lárusar Helga Ólafssonar, markvaðar Fram, að svo fór sem fór. Hann varði 18 skot, þar af eitt víti, alls 45% skotanna sem komu á markið.
Fyrri hluti leiksins var afar jafn og heimamenn tveimur mörkum yfir í hálfleik, 14:12. Framarar byrjuðu seinni hálfleikinn mun betur, gerðu þrjú fyrstu mörkin og komust í 17:12. Þá tóku KA-menn kipp og gerðu fjögur mörk í röð! Staðan þá 17:16 en norðanmenn náðu aldrei að jafna.
Mörk KA í dag: Áki Egilsnes 7, Patrekur Stefánsson 5, Árni Bragi Eyjólfsson 4 , Jóhann Geir Sævarsson 3, Einar Birgir Stefánsson 2 og Ragnar Snær Njálsson 1. Markvörðurinn, Nicholas Satcwell, varði 8 skot, þar af eitt víti – 37,8% skotanna sem komu á markið.
KA er því enn með 14 stig og í þriðja sæti deildarinnar.