Fara í efni
Handknattleikur

„Hrikalega ánægður og stoltur af bræðrunum“

Aron Einar Gunnarsson, Alfreð Gíslason og Arnór Þór Gunnarsson.

Alfreð Gíslason, landsliðsþjálfari Þýskalands í handbolta, nefndi í samtali við Akureyri.net í vikunni hve stoltur hann væri af því að Akureyringar væru fyrirliðar karlalandsliða Íslands bæði í fótbolta og handbolta. Aron Einar Gunnarsson hefur verið fyrirliði fótboltaliðsins árum saman, og leiðir það einmitt til leiks við Þjóðverja í Duisburg í kvöld, í fyrsta leik þjóðanna í undankeppni heimsmeistaramótsins í Katar á næsta ári – í 500. landsleik Íslands. Bróðir hans, Arnór Þór, sem leikur með Bergischer í Þýskalandi, var fyrirliði Íslands á HM í Egyptalandi í janúar.

Í byrjun vikunnar hafði blaðamaður samband við Alfreð, sem án efa er kunnasti KA-maður samtímans, vegna hótunarbréfs sem honum barst á dögunum og töluvert hefur verið í fréttum bæði hér heima og í Þýskalandi.

Eftir að hafa afgreitt það mál snerist samtal Alfreðs og ritstjóra Akureyri.net um gamla heimabæinn, m.a. íþróttalífið, eins og stundum áður. „Svo máttu hafa eftir mér að ég er mjög ánægður með að fyrirliðar beggja landsliðanna séu Akureyringar. Það skiptir mig engu máli að þeir séu Þórsarar! Ég er bara hrikalega ánægður með þá og stoltur af bræðrunum,“ sagði Alfreð.

Óhætt er að fullyrða að Akureyringar eru ekki síður stoltur af honum, allir sem einn, og þremenningarnir eru sannarlega glæsilegir fulltrúar bæjarins.

Smelltu hér til að lesa umfjöllun um Aron Einar og Birki Bjarnason frá því í morgun

Meira um akureyrska landsliðsmenn síðar í dag