Fara í efni
Handknattleikur

Harðsnúnir gengu langt - hinir engir kettlingar!

Þórsararnir Ingólfur Samúelsson og Arnar Gunnarsson taka á móti KA-manninum Hilmari Bjarnasyni í bikarleiknum 1998, auk þess sem Arnar passar að Leó Örn Þorleifsson fari ekki langt rétt á meðan! Lengst til hægri er Páll Viðar Gíslason. Ljósmyndir: Þórir Tryggvason.

Fastlega má gera ráð fyrir því að hraustlega verði tekist á þegar Þórsarar fá KA-menn í heimsókn í íþróttahöllina í kvöld, í bikarkeppninni í handbolta. Óhætt er að segja að sú hafi verið raunin síðast þegar félögin mættust í keppninni, þriðjudagskvöldið 15. desember 1998! KA-menn, sem léku í efstu deild, unnu nauman sigur á Þórsurum, sem voru deild neðar.

„Leikurinn var gríðarlega harður. Þórsarar léku lifandi og kraftmikla vörn þar sem Páll Gíslason fór hamförum fyrir framan harðsnúna félaga sína, sem gengur reyndar oft ansi langt. KA-menn voru heldur engir kettlingar í návígi,“ skrifaði Stefán Þór Sæmundsson, fréttaritari Morgunblaðsins, í blaðið daginn eftir.

Fjörið var heldur ekki af skornum skammti á áhorfendastæðunum enda nánast fullt upp í rjáfur þetta desemberkvöld fyrir rúmum 22 árum, en þar verður enginn í kvöld nema fáeinir stjórnarmenn á stangli og hugsanlega einn ljósmyndari. Áhorfendum er enn ekki hleypt inn í íþróttahús vegna Covid, en vert að benda á að enginn þarf samt að missa af leiknum því hann verður í beinni útsendingu í Ríkissjónvarpinu, á RUV 2, og hefst klukkan 19.30.

Margir muna enn baráttuleikinn þarna um árið, og sumir segjast aldrei gleyma deginum! Ástæða er til þess að hvetja alla Akureyringa til að setjast við viðtækið í kvöld og fylgjast með og í dag mun Akureyri.net hita frekar upp með því að rifja upp desemberkvöldið eftirminnilega 1998.