Gunnar Níelsson, hvern djöfulinn varstu að gera?
Gunnar Níelsson er harður KA-maður eins og margir vita og því er einkar skemmtilegt að rifja upp ævintýrið þegar hann var liðsstjóri handboltaliðs Þórs – í tilefni Þórs og KA í 32 liða úrslitum bikarkeppninnar í handbolta í kvöld. Ein eftirminnilegasta viðureign Akureyrarliðanna síðustu áratugi var einmitt í bikarkeppninni þann vetur. Gunnar kallaði sig iðulega vatnsbera Þórsliðsins á þessum tíma, jafnvel „manninn með vötnin“!
Þriðjudagurinn 15. desember 1998 er Gunna Nella í fersku minni, enda ekki á hverjum degi sem Þór og KA mætast í handbolta, hvað þá með hann sem starfsmann Þórs!
KA-menn, sem voru í efstu deild, unnu leikinn 28:26 í íþróttahöllinni – á „útivelli“ – en Þórsarar voru þá deild neðar á Íslandsmótinu.
Samningurinn var matarkyns!
Andrés Magnússon bakarameistari þjálfaði Þór þennan vetur og lék með liðinu. En hvernig kom það til að KA-maðurinn Gunnar varð liðsstjóri hjá Þór?
Gunni vann á þessum árum í íþróttahöllinni og segist hafa drukkið kaffi með vinum sínum í Þór nokkrum sinnum í viku. „Ég vil meina að ég hafi alið þessa stráka upp, jafnvel skipt á einum eða tveimur, ég var búinn að þekkja þá svo lengi,“ segir hann og hlær.
Andrés bauð vini sínum embætti liðsstjóra, Gunnar varð mjög hugsi en sló á endanum til, eftir að hafa ráðfært sig við unnustuna, Ragnhildi Jósefsdóttur, og fundað með föður sínum – Níels Halldórssyni, þeim mikla og góða KA-manni.
„Það var þannig að við Ragga ætluðum loks að gifta okkur vorið ´99, þannig að samningurinn var matarkyns! Við vorum ákveðin í því að veita vel og hafa marga og því ljóst að brúðartertu þyrfti fyrir rúmlega tvö hundruð manns. Bakarameistarinn tók að sér að sjá um tertuna og hún var á mörgum hæðum – ég hef aldrei séð annað eins.“
Kjöt þurfti í veisluna og þess vegna var samið við eitt af samstarfsfyrirtækjum handboltaliðs Þórs, Bautabúrið sáluga, „og svo vantaði auðvitað kokk. Þar sem ég hef lengi haldið því fram að ég sé hæverskur segi ég stundum frá því að við Ragga höfum búið þann kokk til, vegna einhverra óljósra tengsla hans inn í handboltann; hann fékk að minnsta kosti stóra tækifærið hjá okkur. Það var Friðrik fimmti og ég held því fram að brúðkaupið okkar hafi verið fyrsta gigg þeirra hjóna, hans og Öddu.
Hugsaðu þér; allt kom þetta til vegna þess að ég var vatnsberi hjá Þór. Maður á aldrei að gera lítið úr góðu vatni!“
„Ég styð þig í einu og öllu“
Gunni segir að í fyrstu hafi honum þótt tilboð Andrésar vinar sínar, um liðsstjóraembættið, allt að því ósiðsamlegt. „Ég vissi að ég þyrfti að ræða málið við verðandi konu mína. Gunni minn, ég styð þig í einu og öllu, sagði hún og fullvissaði mig um að þetta yrði allt í fína lagi.
Þá var komið að því að útskýra málið fyrir karli föður mínum og ég ímyndaði mér að það gæti orðið þyngra ferðalag, en hann tók mér vel. Sagði samt: Ekki búast við mér í rauðri treyju, kallandi áfram Þór! Ég hafði aldrei gert ráð fyrir því, og þar með var þetta ákveðið.“
Eftir fundahöld í fjölskyldunni hringdi Gunnar í Andrés þjálfara og þáði boðið. „Um leið ég hafði lagt símann á sagði innri rödd í hausnum á mér: Þú veist að þið fáið KA í bikarnum. Röddin sagði þetta svo yfirvegað að ég efaðist aldrei. Þegar svo var dregið í bikarkeppninni og Valtýr Björn sagði frá því í beinni útsendingu – Þór fær heimaleik, og leikur gegn ... KA, varð ég ekki einu sinni undrandi. Ég var búinn að vita þetta síðan um sumarið!“
Dagurinn er Gunnari ógleymanlegur, sem fyrr segir.
„Ég held ég muni daginn í smátriðum frá A til Ö, en ætla samt ekki að þreyta lesendur með því að fara ítarlega yfir hann. En samt ...
Það var fundur í Hamri, félagsheimili Þórs, boðið upp á te og ristað brauð og ég hélt ræðu; mikla ræðu. Ég þóttist vita hvernig „mínir menn“ í KA myndu koma í leikinn og jafnframt að ég væri með með grjótaharða Þórsara í höndunum sem myndu taka boðskap mínum eins og til var ætlast.“
Að brjóta blýant ...
„Ég var handviss um að sumir KA-strákarnir myndu varla nenna að spila leikinn, Þórsarar ættu varla skilið að gera á sama gólfdúk og þeir! Ég kom því við í bókabúð á leið út í Hamar og keypti 12 blýanta. Þar sem ég stóð fyrir framan hópinn braut ég einn blýant; það var mjög auðvelt. En þegar ég hélt á hinum 11 og reyndi að brjóta alla í einu var það vonlaust; þetta átti að sýna strákunum hve samstaðan var mikilvæg. Og þetta virkaði.“
Gunnar nefnir aðallega tvo Þórsara þegar hann rifjar leikinn upp. „Páll Gíslason var mjög góður í leiknum en Atli Þór Samúelsson – drottinn minn dýri. Hann var ekki mennskur, gerði 16 mörk.“
Þótt KA-blóð renni í æðum Gunnars segist hann hafa unnið fyrir Þór af fullum heilindum og svo sannarlega ætlað sér að vinna leikinn. „Ég átti að sjálfsögðu mjög góða vini í KA, Atli Hilmarsson þjálfar var og er stórvinur minn og Árni Stefánsson, fóstbróðir minn, var liðsstjóri. En mér var full alvara.“
Öðlingur – í síðbuxum!
Margir muna stemninguna í húsinu, sumir hve frábær Atli Þór Samúelsson var í leiknum og líklega flestir eftir því að eldri bróðir Atla, varnarjaxlinn Ingólfur, gerði sér lítið fyrir og skallaði KA-manninn Halldór Jóhann Sigfússon í blálokin og fékk að líta rauða spjaldið fyrir.
„Sko!“ segir Gunnar og leggur áherslu á orðið, þegar atvikið ber á góma. „Rétt er að taka það fram að vatnamaðurinn lagði þetta ekki upp! Ég hefði kosið að Ingólfur hefði sleppt þessu! Eins og allir vita er Ingólfur Samúelsson mikill öðlingur – þegar hann er kominn í síðbuxur! Þá færðu ekki betri mann og ekki að ástæðulausu að hann er kallaður Stólpinn. Hann er algjör stólpi þessi drengur.“
Áhorfendapallarnir voru þétt setnir þetta kvöld og hörku stemning bæði utan vallar og innan. Ragnhildur unnusta Gunnars treysti sér ekki á leikinn heldur fylgdist með heima – á textavarpinu! Já, það er svo langt síðan þetta var.
„Seinni hálfleikurinn var mjög langur, áreiðanlega einar 45 mínútur því oft þurfti að stoppa leikinn, þurrka gólfið og huga að mönnum eftir smávægilegt hnjask. Textavarpið í sjónvarpinu var þannig að letrið var fyrst gult, síðan rautt þegar leiknum átti að vera lokið en úrslitin óstaðfest, og loks grænt þegar staðfest úrslit lágu fyrir. Þegar Ragga sá í textavarpinu að staðan var 23:22 fyrir Þór, leit á klukkuna og vissi að leikurinn ætti að vera búinn samkvæmt öllum skynsamlegum viðmiðum var hún handviss um að hennar menn í KA hefðu tapað. Svo þegar unnustinn kom heim, bugaður eftir tapið og það að ganga upp 48 tröppur, upp á 4. hæð í blokkinni þar sem við bjuggum, tók hún á móti mér með þessum orðum: Gunnar Níelsson, hvern djöfulinn í andskotanum varstu að gera? Þetta var konan sem sagðist myndu standa með mér, manstu! Þetta var stuðningurinn! Ég urraði aðeins á hana og sagði hvernig fór, þannig að hún tók gleði sína nýju. Einhver var því ánægður á heimilinu þetta kvöld...“
- Rétt er að minna á að áhorfendur eru ekki leyfðir á leiknum, en hann verður sýndur beint í sjónvarpinu, á RÚV 2.
Andrés Magnússon, leikmaður Þórs og þjálfari, í dauðafæri á línunni; Leó Örn Þorleifsson fyrir aftan hann og Jónatan Magnússon, núverandi þjálfari KA, til hægri. Á hægri myndinni skorar Jóhann Gunnar Jóhannsson fyrir KA, en hann reyndist hetja liðsins. Aftan við hann eru Geir Kristinn Aðalsteinsson, til hægri, og Þorvaldur Sigurðsson, núverandi þjálfari Þórs. Í markinu er Björn Björnsson. Ljósmyndir: Þórir Tryggvason.
Myndin að ofan: Þórsarinn Atli Þór Samúelsson, sem fór hamförum í leiknum, og Leó Örn Þorleifsson.