Fimmtán SA-drengir í U18 landsliðinu

Fimmtán af 20 landsliðsdrengjum Íslands í U18 landsliðinu í íshokkí eru úr röðum Skautafélags Akureyrar. Liðið átti á brattan að sækja gegn sterkum mótherjum.
U18 landslið drengja í íshokkí, skipað leikmönnum sem fæddir eru 2007-2009, átti við ramman reip að draga í 3. deild A á Heimsmeistaramótinu sem spiluð var í Mexíkó og lauk á laugardagskvöld. Svo fór að lokum að liðið endaði í neðsta sæti og fellur niður í 3. deild B. Eins og svo oft áður var meirihluti landsliðsdrengjanna frá Skautafélagi Akureyrar, en SA-drengirnir voru 15 af 20 manna hópi, ásamt því að þrír SA-karlar voru í starfsliðinu.
Ísland fékk skell í fyrsta leik, tapaði 2-12 fyrir Hong Kong og 3-6 í öðrum leik, en vann Tyrkland 4-3 í þriðja leiknum. Heimamenn í Mexíkó eru erfiðir heim að sækja, ekki síst þegar spilað er í 2.300 metra hæð fyrir fullu húsi stuðningsmanna. Íslenska liðið tapaði 2-5 fyrir Mexíkóum, sem tryggðu sér þar með sigur í mótinu. Drengirnir þurftu því nauðsynlega á sigri að halda í lokaleik sínum í gærkvöld. Ísland hafði þrjú stig fyrir lokaleikinn og hefði nægt eitt stig gegn Nýja-Sjálandi sem var á botninum án stiga fyrir lokaumferðina. Það fór hins vegar á annan veg, lokatölur urðu 2-6 og Nýja-Sjáland fór þar með upp fyrir Ísland, sem lauk leik í neðsta sæti deildarinnar.
Leikmenn Skautafélags Akureyrar í U18 landsliðinu - listi af vef SA.
- Markmaður: Sigurgeir Söruson
- Varnarmenn: Aron Ingason, Elvar Skúlason, Finnur Finnsson, Magnús Sigurólason, Gabriel Benjamínsson
- Framherjar: Stefán Guðnason, Bjarmi Kristjansson, Þorleifur Rúnar Sigvaldason, Bjarki Jóhannsson, Alex Ingason, Mikael Eríksson, Bjartur Westin, Sölvi Blöndal, Askur Reynisson
Mörk og stoðsendingar SA-drengjanna í leikjunum fimm:
- Stefán Guðnason 3/1
- Bjarmi Kristjánsson 2/2
- Alex Ingason 2/1
- Aron Ingason 1/4
- Mikael Eiríksson 1/3
- Elvar Skúlason 1/2
- Þorleifur Rúnar Sigvaldason 1/0