Fara í efni
Handknattleikur

Einn tveir eða þrír bikarar á loft um helgina?

Nú er langt liðið á keppnistímabilin í blaki, handbolta, íshokkí og körfubolta og einn af öðrum fara deildarmeistarabikarar á loft og komið að ögurstundum á ýmsum vígstöðvum. Bikarhelgin í blakinu er í algleymingi, karlalið KA komið í úrslitaleikinn og kvennalið KA spilar í undanúrslitum í dag. Karlalið SA í íshokkí lyftir væntanlega deildarmeistarabikar á morgun og karlalið Þórs í handknattleik getur stigið skrefi nær sæti í Olísdeildinni með sigri í dag. 

FÖSTUDAGUR blak, handbolti, körfubolti

Kvennalið KA í blaki mætir Aftureldingu í undanúrslitum Kjörísbikarsins í dag og þá ræðst hvort félagið mun eiga eitt eða tvö lið í bikarúrslitum. Þessi félög hafa marga hildi háð á blakvöllunum undanfarin ár og má búast við spennandi og skemmtilegum leik í kvöld. Í hinni undanúrslitaviðureigninni mætast HK og Álftanes. Úrslitaleikurinn verður á laugardag kl. 15:30. 

  • Kjörísbikar kvenna í blaki, undanúrslit
    Digranes í Kópavogi kl. 17
    KA - Afturelding

- - -

Karlalið Þórs í handknattleik vann auðveldan sigur á HBH frá Vestmannaeyjum á Akureyri á þriðjudaginn og nú mætast liðin aftur í Grill 66 deildinni, Þórsarar sækja Eyjaliðið heim og geta stigið stórt skref í átt að sæti í Olísdeildinni með sigri. Enn eiga Selfyssingar þó tölfræðilegan möguleika á að stela efsta sætinu og deildarmeistaratitillinn því ekki í hendi Þórsara enn.

  • Grill 66 deild karla í handknattleik
    Íþróttamiðstöðin í Vestmannaeyjum, gamli salur kl. 17:30
    HBH - Þór

- - -

Þórsarar eiga erfiðan útileik fyrir höndum í 1. deild karla í körfuknattleik í kvöld þegar þeir sækja Hamar heim í Hveragerði. Þórsarar eru að berjast fyrir því að halda 5. sætinu og gætu jafnvel átt von um að komast hærra með hagstæðum úrslitum í lokaumferðunum.

ÍA er á toppi deildarinnar og nánast öruggt að liðið fer beint upp í Bónusdeildina. ÍA hefur unnið 16 leiki, en Ármann, Sindri og Hamar koma næst með 13 sigra og þá Þór og Fjölnir með 11 sigra. Öll liðin eiga eftir að spila þrjá leiki í deildinni. Að deildarkeppninni lokinni fara liðin í 2.-9. sæti í umspil um hitt lausa sætið í Bónusdeildinni.

  • 1. deild karla í körfuknattleik
    Hveragerði kl. 19:15
    Hamar - Þór

LAUGARDAGUR  blak, fótbolti, íshokkí

Þegar þetta er ritað er ekki vitað hvaða lið fara í úrslit Kjörísbikarkeppni kvenna í blaki, en klárt að karlalið KA leikur til úrslita á laugardag eins og fjallað er um í annarri grein.

  • Kjörísbikar karla í blaki
    Digranes í Kópavogi kl. 13
    KA - Þróttur R.
  • Kjörísbikar kvenna í blaki
    Digranes í Kópavogi kl. 15:30
    KA eða Afturelding - HK eða Álftanes

- - -

Leik Þórs/KA og Vals í A-deild Lengjubikars kvenna hefur verið flýtt um einn dag og verður spilaður á laugardag kl. 17 í stað sunnudags. Þór/KA þarf á sigri að halda til að vera áfram með í baráttunni um annað af tveimur efstu sætum riðilsins og þar með sæti í undanúrslitum.

  • A-deild Lengjubikars kvenna í knattspyrnu, riðill 1
    Boginn kl. 17
    Þór/KA - Valur

- - -

Segja má að báðir hokkíleikir laugardagsins séu formsatriði. Nú þegar er ráðið hvaða lið eru deildarmeistarar karla og kvenna og hvaða lið mætast í úrslitaeinvígjunum. SA-liðin taka á móti liðum SR á laugardag.

Karlalið SA hefur nú þegar tryggt sér deildarmeistaratitilinn og því ætti bikar að fara á loft í Skautahöllinni á Akureyri síðdegis á laugardag. SA missti hins vegar sama titil í hendur Fjölni. 

  • Toppdeild karla í íshokkí
    Skautahöllin á Akureyri kl. 16:45
    SA - SR
  • Toppdeild kvenna í íshokkí
    Skautahöllin á Akureyri kl. 19:30
    SA - SR

SUNNUDAGUR – handbolti

KA heldur enn í vonina að komast í úrslitakeppni Olísdeildar karla í handknattleik, en liðið er nú þremur stigum á eftir HK þegar þrjár umferðir eru eftir af deildinni. KA þarf því á sigri að halda þegar liðið sækir Stjörnuna heim í Garðabæinn á sunnudag. 

  • Olísdeild karla í handknattleik
    Hekluhöllin í Garðabæ kl. 16
    Stjarnan - KA

NÆSTA VIKA - fótbolti, körfubolti, handbolti

Nokkur Akureyrarlið eiga síðan leiki í komandi viku. Þór tekur á móti FH í Lengjubikar karla í knattspyrnu á þriðjudag og sama dag mætir Þór/KA liði Fylkis á útivelli í frestuðum leik í Lengjubikar kvenna. Á miðvikudag mætir kvennalið Þórs í körfuknattleik toppliði Hauka á útivelli. Á fimmtudag tekur Þór á móti liði Fjölnis í mikilvægum leik í 1. deild karla í körfuknattleik og á föstudag í næstu viku sækja deildarmeistarar KA/Þórs lið Fjölnis heim í Grill 66 deild kvenna í handknattleik.

Úrslitakeppnin í íshokkí kvenna á einnig að hefjast á þriðjudaginn í næstu viku samkvæmt keppnisdagatali ÍHÍ, en þar munu lið SA og Fjölnis eigast við, eins og fram hefur komið.