Fara í efni
Handknattleikur

Blak í blómabænum, handbolti í Hafnarfirði

Tveir af lykilmönnum KA-liðanna sem verða í eldínunni í kvöld, Einar Rafn Eiðsson og Miguel Mateo Castrillo. Myndir: Skapti Hallgrímsson

Tvö karlalið KA verða á ferðinni í kvöld í mikilvægum leikjum. Handboltastrákarnir etja kappi við deildarmeistara FH í Hafnarfirði í fyrstu umferð úrslitakeppninnar og blakmenn félagsins, ríkjandi Íslandsmeistarar, mæta nýbökuðum bikarmeisturum Hamars í Hveragerði.

  • 18.00 FH - KA

FH varð deildarmeistari í handbolta en KA í áttunda sæti. Sigra þarf í tveimur leikjum til þess að komast í undanúrslit og næsti leikur liðanna verður í KA-heimilinu á sunnudaginn kl. 14.00.

FH vann fyrri leik liðanna í deildinni 34:28 í KA heimilinu í lok nóvember og í síðustu umferðinni á dögunum fögnuðu FH-ingar sigri á KA-mönnum í Kaplakrika, 32:33. 

Í ljósi úrslita vetrarins verður við ramman reip að draga fyrir KA-menn en Halldór Stefán Haraldsson þjálfari er hvergi banginn. „Við tökum það með okkur að við erum á svipuðu leveli og þeir þegar við náum að spila okkar leik, eins og við gerðum í fyrri hálfleiknum þá,“ segir hann í viðtali sem birtist á Imstagram reikningi KA í dag og vísar til 10 marka tapsins um daginn, en staðan í hálfleik var 14:13 fyrir KA.

„Í seinni hálfleik náðu þeir að þrýsta okkur aðeins meira inn á miðjuna og setja okkur í erfiðari færi, á sama tíma og Daníel [Freyr Andrésson] varði frábærlega í markinu,“ sagði Halldór. „Við erum með einhverja ása í uppi í erminni sem við getum notað og ætlum að reyna að koma þeim inn. Verkefnið er stórt, við vitum það, en við vitum líka að við getum alveg unnið þessi stærstu lið.“

Smellið hér til að sjá viðtalið við Halldór Stefán

Leikurinn verður sýndur beint á Handboltapassanum

  • 19.30 Hamar - KA

Fyrsti leikur liðanna í undanúrslitum Íslandsmóts karla í blaki. Hamar, úr blómabænum Hveragerði, og KA  hafa verið tvö bestu lið landsins undanfarin ár; KA varð Íslandsmeistari í fyrra, sigraði þá Hamar í úrslitaeinvígi en Hamar varð bikarmeistari um daginn eftir að hafa unnið KA í undanúrslitum.

Sigra þarf í tveimur leikjum til að komast í úrslit Íslandsmótsins. Liðin mætast aftur á sunnudaginn í KA-heimilinu kl. 14.00.

Smellið hér til að horfa á leik dagsins í beinu streymi.
 

Hér er hægt að fylgjast með lifandi tölfræði.