Fara í efni
Handknattleikur

Arnór Þór ráðinn þjálfari Bergischer HC

Samherjar hjá Bergischer HC, hættu á sama tíma. Fabian Gutbrot, núverandi íþróttastjóri félagsins, og Arnór Þór Gunnarsson, nýráðinn þjálfari liðsins.

Akureyrski handboltakappinn Arnór Þór Gunnarsson tekur við þjálfun þýska liðsins Bergischer HC í þýsku 1. deildinni - Bundesligunni - ásamt Markus Pütz eftir að aðalþjálfara liðsins og helsta aðstoðarmanni hans var vikið frá störfum í dag. Íslenski handboltavefurinn handbolti.is greinir frá.

Þeir Arnór Þór og Pütz hafa verið ráðnir til að stýra liðinu út tímabilið, en nýr þjálfari verður ráðinn til félagsins á næstunni og mun taka við liðinu í sumar. Arnór Þór lagði skóna á hilluna fyrir tæpu ári síðan og hefur síðan þá starfað í þjálfarateymi Bergischer HC í þýsku Bundesligunni, aðallega þó með ábyrgð á yngri liðum félagsins. Hann var tekinn inn í heiðurshöll Bergischer HC þegar hann lauk ferlinum með félaginu í júní í fyrra eftir að hafa spilað þar samfleytt í 11 ár. Fabian Gutbrot, sem hætti á sama tíma og Arnór Þór, verður þeim félögum innan handar, en hann starfar nú sem íþróttastjóri félagsins. 

Gengi Bergischer HC hefur verið afleitt að undanförnu og hefur liðið tapað 12 leikjum í röð. Liðið situr nú í næstneðstasæti deildarinnar og er í mikilli fallhættu þegar sex umferðum er ólokið í Bundesligunni.