Fara í efni
Golf

Ný inniaðstaða og hótel við Jaðarsvöll

Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, og Bjarni Þórhallsson, formaður GA, undirrituðu samninginn. Mynd: Akureyri.is.

Mikil uppbygging er fram undan hjá Golfklúbbi Akureyrar, nýtt hús fyrir inniaðstöðu í burðarliðnum, auk þess sem afmörkuð hefur verið lóð fyrir hótel og stækkun íbúðasvæðis meðfram Kjarnagötu. Fulltrúar Akureyrarbæjar og Golfklúbbs Akureyrar undirrituðu í dag samning um uppbyggingu á svæði golfklúbbsins þar sem þessi áform eru staðfest.

Hvað aðstöðu golfklúbbsins varðar verður byggð inniaðstaða að grunnfleti um 600 fermetrar, vestan núverandi golfskála, ásamt kjallara. Fram kemur í frétt á vef Akureyrarbæjar um samninginn að með þessu megi færa alla starfsemi GA á einn stað og það muni styrkja félagsstarf GA til muna, sérstaklega yfir vetrarmánuðina.

Framlag Akureyrarbæjar til byggingarinnar er samtals 180 milljónir króna, vísitölutryggt, á árunum 2024-2028.


Græni reiturinn sýnir svæðið þar sem gert er ráð fyrir að rísa muni hótel með allt að 150 herbergjum. Mynd: Akureyri.is.

Styrkir svæðið sem útivistarsvæði

Allt frá 2011 hefur í deiliskipulagi verið afmarkaður byggingarreitur fyrir hótel suðaustan við núverandi klúbbhús við Jaðarsvöll. Samkvæmt skipulaginu er gert ráð fyrir að hótelið tengist klúbbhúsinu og er ekki afmörkuð sér lóð fyrir hótelið. Golfklúbburinn mun hins vegar ekki standa sjálfur að byggingu hótels og því nauðsynlegt að afmarka sérstaka lóð fyrir hótelið. Miðað er við að lóðin verði ekki lengur hluti af því svæði sem lóðarleigusamningu GA og Akureyrarbæjar tekur til heldur muni bærinn fá lóðina til úthlutunar. Lóðin verður um 3.000 fermetrar og gert ráð fyrir að þar megi byggja allt að 150 herbergja hótel.

Fram kemur í fréttinni að talið sé að bygging hótels á golfvellinum geti styrkt svæðið sem heilsársútivistarsvæði enda liggi hann upp að útivistarsvæði bæjarins í Naustaborgum og Kjarnaskógi. Með byggingu hótels gefist tækifæri til að styrkja rekstur GA allt árið um kring með aukinni nýtingu bæði golfvallar og inniaðstöðu auk þess að efla almenna ferðaþjónustu á Akureyri.


Græni reiturinn sýnir svæðið þar sem gert er ráð fyrir íbúðarsvæði í stað stækkunar golfvallarins að Kjarnagötu eins og ætlunin var miðað við deiliskipulagið frá 2011. Mynd: Akureyri.is.

Myndin hér að ofan sýnir svæði um 1,3-1,5 hektara að stærð og er miðað við að hluti þess geti nýst sem íbúðarsvæði. Gert var ráð fyrir því í deiliskipulagi frá 2011 að golfvöllurinn myndi stækka til austurs, alveg að Kjarnagötu, en ekki hefur orðið af því og engin áform um að breyta golfvellinum á þessu svæði. Það fellur því aftur til Akureyrarbæjar.