Nói og Donni á „gamla, góða“ Sanavellinum
GAMLA ÍÞRÓTTAMYNDIN – XIX
Íslandsmótið í knattspyrnu hefst eftir aðeins tvær vikur þegar flautað verður til leiks í Bestu deild karla, efstu deild Íslandsmótsins. KA menn taka á móti HK í fyrstu umferð mótsins í ár, á Greifavelli sínum sunnan við KA-heimilið sunnudaginn 7. apríl.
Mótið hefur aldrei byrjað jafn snemma og í ár en ekkert er mönnum að vanbúnaði; gervigras KA er fagurgrænt og slétt eins og vera ber og leikmenn til í slaginn. Helst til mikið hefur að vísu snjóað á Akurreyri síðustu daga en ekki er hægt annað en vona það besta og að mjöllin verði bráðnuð þegar þar að kemur.
Aðstæður nú til dags eru mjög frábrugðnar þeim sem stóðu knattspyrnumönnum til boða á árum áður.
Akureyrarvöllur við Hólabraut var lengi eini grasvöllur bæjarins og sjaldnast var farið að spila á honum fyrr en um miðjan júní. Áður en Þór og KA eignuðust eigin grasvelli léku félögin því fyrstu heimaleiki á Íslandsmóti ár hvert á malarvöllum á félagssvæðum sínum og jafnvel á „gamla, góða“ Sanavellinum, þar sem nú er gámasvæði Akureyrarhafnar, neðan við verslun Hagkaups.
Sanavöllur var malarvöllur, stundum harður sem malbik en hálfgert drullusvað í vætutíð eins og tilfellið var þegar Guðmundur Svansson tók þessa mynd í maí 1983. Þarna áttust Þór og KA við í Vormóti KRA, æfingamóti sem Knattspyrnuráð Akureyrar stóð fyrir. Á myndinni eru tveir af kunnustu leikmönnum Akureyrar á þessum tíma, Nói Björnsson fyrirliði Þórs til vinstri, og KA-maðurinn Jóhann Jakobsson, alltaf kallaður Donni.
Ekki er ólíklegt að gripið hafi verið til þess ráðs eftir viðureignina þennan dag að spúla drulluna af leikmönnum með slöngu áður en þeim var hleypt inn í íþróttahús til þess að komast í sturtu! Það var að minnsta kosti stundum gert. Hætt var að nota Sanavöllinn um 1990.