Tvöfaldir meistarar KA í blaki karla 1991

GAMLA ÍÞRÓTTAMYNDIN – 69
KA leikur í dag til úrslita í bikarkeppni karla og kvenna í blaki. KA-strákarnir mæta Reykjavíkur-Þrótti og kvennalið félagsins mun kljást við HK.
Í tilefni dagsins er tilvalið að gamla íþróttamyndin að þessu sinni af karlaliði KA vorið 1991, þegar félagið varð tvöfaldur meistari í fyrsta skipti; sigraði bæði á Íslandsmótinu og í bikarkeppninni.
Myndin er tekin þegar KA-strákarnir urðu bikarmeistarar laugardaginn 13. apríl. Þetta var í þriðja skipti sem KA lék til úrslita í bikarkeppni karla. Liðið hafði tapað í bæði skiptin, fyrst fyrir Þróttir R. og síðan ÍS, en þarna brutu KA-strákarnir ísinn. Og sigurinn var næsta auðveldur: fyrstu hrinuna unnu þeir 15:5, næstu 17:15 – þá einu sem var spennandi – og yfirburðirnir voru gríðarlegir í þriðju hrinunni sem lauk 15:3.
Aftari röð frá vinstri: Hiou Xioa Fei, þjálfari liðsins og leikmaður, Bjarni Þórhallsson, Hafsteinn Jakobsson, Stefán Magnússon, Þröstur Friðfinnsson, Kristján Sigurðsson og Sigmundur Þórisson formaður KA.
Fremri röð frá vinstri: Arngrímur Arngrímsson, Magnús Aðalsteinsson, Haukur Valtýsson, Pétur Ólafsson, Oddur Ólafsson og Sigurður Arnar Ólafsson.
Helgina áður höfðu þeir hampað Íslandsbikarnum eftir að lokaumferð mótsins fór fram. Vert er að geta þess að á lokahófi Blaksambandsins sem fram fór eftir síðustu umferð Íslandsmótsins var Þröstur Friðfinnsson úr KA valinn besti leikmaður vetrarins.