Fara í efni
Gamla íþróttamyndin

Fyrsti Íslandsmeistari Akureyringa í íþróttum

GAMLA ÍÞRÓTTAMYNDIN – XXXVII

Sundkeppni Ólympíuleikanna í París hófst í morgun og því er ekki úr vegi að skyggnast nokkra áratugi aftur í tímann og segja frá Steinunni Jóhannesdóttur, bestu sundkonu Íslands á fjórða áratug aldarinnar sem leið. Hún mun fyrsti Íslandsmeistari Akureyringa í íþróttum og átti um tíma Íslandsmet í öllum vegalengdum í bringusundi.

Sundfélagið Grettir, fyrsta sundfélag Akureyringa, var stofnað í júlí 1937. Steinunn var skráð í Gretti síðar það ár en var farin að keppa fyrir Íþróttafélagið Þór þegar hún skaust fram á sjónarsviðið aðeins 13 ára gömul í ágúst árið 1938. Þá setti Steinunn fyrsta Íslandsmetið, í 200 metra bringusundi, á Sundmóti Norðlendingafjórðungs. Keppt var í lauginni í Grófargili á Akureyri.

Mynd af Steinunni Jóhannesdóttur sem birtist eftir Sundmót Norðlendingafjórðungs árið 1938, þegar hún var aðeins 13 ára.

Tími Steinunnar þegar hún setti þetta fyrsta met var 3 mín. 33,4 sek en gamla metið átti Jóhanna Erlingsdóttir úr sundfélaginu Ægi í Reykjavík, 3 mín. 34,8 sek.

„Afrek Steinunnar er því betra, þar sem hún hafði enga aðra stúlku að keppa við, og því ekki ólíklegt, að hún geti bráðum bætt þetta nýja met,“ sagði Akureyrarblaðið Íslendingur og það reyndist hverju orði sannara. Umfjöllun annarra var á sömu nótum. „Afrek þetta er mjög gott, þegar tillit er tekið til þess að stúlkan synti alein og er aðeins 13 ára að aldri,“ sagði í Alþýðumanninum.

Steinunn varð Íslandsmeistari í fyrsta skipti þegar Sundmeistaramót Íslands fór fram í Reykavík í október árið 1939. Þá sigraði hún í 200 m bringusundi, og átti á þeim tíma Íslandsmet í öllum vegalengdum; 50 m, 100 m, 200m og 400 m bringusundi.

Á mótinu í október 1939 bætti Steinunn tvö Íslandsmet, í 50 m og 200 m bringusundi. Hún hafði mikla yfirburði; synti 200 metrana t.d. á 3:31,8 mín. en sú sem varð í öðru sæti synti á 3:38,2 mín – kom tæpum sjö sekúndum á eftir Þórsaranum í mark. 

Steinunn flutti ung til Bandaríkjanna og bjó þar allt til dauðadags.