Fara í efni
Gamla íþróttamyndin

Fótboltakappar úr Þór og KA saman í liði

GAMLA ÍÞRÓTTAMYNDIN – XL

Á þessari bráðskemmtilegu mynd stilla sér upp knáir kappar fyrir knattspyrnuleik, íþróttakempur úr báðum Akureyrarfélögunum, Þór og KA, og nokkrir auðþekkjanlegir.

Annar frá vinstri í aftari röð er KA-maðurinn Ragnar Sigtryggsson – Gógó – fyrsti landsliðsmaður Akureyrar í knattspyrnu. Við hlið hans, þriðji frá vinstri, er Þórsarinn Hreinn Óskarsson, lengi vallarstjóri á Akureyrarvelli og umsjónarmaður Íþróttaskemmunnar á Oddeyri. Hreini á vinstri hönd, þriðji frá hægri, er Þórsarinn Júlíus Magnússon – Dúlli Magg – mesti íþróttamaður Þórs um árabil að mati margra sem muna þá tíð, og lengst til hægri í aftari röð er KA-maðurinn Baldur Árnason.

Íþróttafrömuðurinn Haraldur Sigurðsson, – Lalli Sig – var mikill grúskari og sögufróður. Lalli, sem var formaður KA um tíma, talaði oft um Dúlla Magg við þann sem þetta skrifar og hafði sterkar skoðanir á honum sem íþróttamanni: Hann var langbesti Þórsarinn og ef Dúlli mætti til keppni, hvort sem var í knattspyrnu eða á skíðum, urðu KA-menn hræddir, annars ekki!

Ekki verður upplýst um fleiri nöfn hér, en fólk hvatt er til að rýna í myndina og senda upplýsingar eða vangaveltur á netfangið skapti@akureyri.net – um nöfn leikmanna, hvar og hvenær myndin gæti verið og við hvaða tækifæri. Aðeins ein treyja er merkt, KA-merkið prýðir markmannstreyjuna þannig að varla er þetta ÍBA-lið. Eða hvað, gæti það verið? Gaman verður að sjá viðbrögð lesenda.