Heilsuvernd: brunavarnir í ólagi 2019 og ástandið eins nú – bærinn komi þeim í lag
Slökkviliðið á Akureyri hefur varað Akureyrarbæ við yfirvofandi lokun dvalarheimilisins Hlíðar vegna ágalla á eldvörnum í húsnæðinu, eins og Akureyri.net greindi frá fyrr í dag. Bæjarráð gerði í morgun þá skilyrðislausu kröfu að ríkið og/eða Heilsuvernd ehf., sem yfirtók rekstur dvalarheimilanna á Akureyri á síðasta ári, greiði kostnaðinn við þau verk sem þarf að vinna.
Heilsuvernd (HH) krefst þess hins vegar að Akureyrarbær sjái til þess að brunavörnum verði komið í lag. Í bréfi til bæjaryfirvalda 4. þessa mánaðar segir stjórnarformaður Heilsuverndar að fyrir hafi legið, þegar félagið tók við rekstrinum, að ástand brunavarna væri slæmt en komið hefði í ljós að það væri mun verra en HH gerði ráð fyrir við yfirtökuna.
„Eins og Akureyrarbæ er kunnugt gerði Slökkvilið Akureyrarbæjar úttekt á brunavörnum fasteignarinnar 15. janúar 2019 og hefur gert það árlega síðan, nú síðast í gær. Niðurstaðan er sú að nú rúmum þremur árum síðar má segja að ástandið sé enn það sama, nema þolinmæði Slökkviliðsins vegna aðgerðarleysisins er alfarið þrotin,“ segir í bréfinu frá HH til Akureyrarbæjar.
Hálfur mánuður til stefnu
Heilsuvernd segir að skv. bréfi slökkviliðsins sé lokun húsnæðisins yfirvofandi verði ekki brugðist við fyrir 25. febrúar. „Vart þarf að taka fram hversu alvarlegt málið er. Íbúar heimilisins eru 108 og notendur dagþjálfunar um 55. Starfsmenn í húsi eru að jafnaði nálægt 100. Þar eru ótaldir aðstandendur og aðrir sem koma inn í húsið,“ segir í bréfi HH. „Það er vitaskuld með öllu óásættanlegt gagnvart öryggi allra þessara einstaklinga að eigendur fasteignarinnar, Akureyrarbær og íslenska ríkið, hafi látið svo alvarlegar athugasemdir um brunaöryggismál hússins, sem vind um eyru þjóta í allan þennan tíma. Það segir sig sjálft að lokun heimilisins myndi setja umhverfi allra vistmanna í fullkomið uppnám, enda hefðu fáir í neitt annað húsaskjól að hverfa en til nánustu ættingja. Margir hafa ekki slík úrræði og með öllu óljóst hvert þeir ættu að fara. Slíkt gengur ekki upp eins og gefur að skilja.“
Bréfinu lýkur með þessum orðum: „HH gerir hér með kröfu þess efnis að Akureyrarbær sjái til þess að þeim málum sem varða brunavarnir hússins verði komið í lag fyrir þann tímafrest sem gefinn er af hálfu slökkviliðsins.“