Fara í efni
Fyrirtækið Heilsuvernd

Eva Rut Ásþórsdóttir til liðs við Þór/KA

Eva Rut Ásþórsdóttir í þann mund að þakka Sigurjóni Þór Vignissyni aðstoðardómara fyrir leikinn, eftir að Þór/KA sigraði Fylki 3:1 í Bestu deildinni á VÍS-velli Þórs í fyrrasumar. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Knattspyrnukonan Eva Rut Ásþórsdóttir hefur samið til eins árs við Þór/KA. Hún er 23 ára og hefur leikið með Fylki síðustu fimm ár.

„Eva Rut er kröftugur miðjumaður, líkamlega sterk og lætur til sín taka jafnt í sókn og vörn, hefur góðan leikskilning, frábæra spyrnutækni og er marksækin,“ segir á vef Þórs/KA í dag. „Hún kemur til Þórs/KA frá Fylki þar sem hún hefur spilað undanfarin fimm tímabil. Eva Rut kemur upphaflega úr röðum Aftureldingar þar sem hún lék í yngri flokkunum og spilaði einnig sína fyrstu meistaraflokksleiki fyrir Aftureldingu í Lengjubikar og 1. deildinni 2016.“

Mikill fengur

„Við erum himinlifandi með að fá Evu til okkar í Þór/KA,“ segir Jóhann Kristinn Gunnarsson þjálfari. „Eva er fjölhæf með mikla hæfileika og reynslu sem á eftir að smellpassa inn í okkar lið. Ég er sannfærður um að Eva á eftir að taka næsta skref á sínum ferli hérna hjá okkur ásamt því að gera liðið okkar enn betra. Þetta er mikill fengur fyrir okkur og við hlökkum mikið til að vinna með henni.“

Eva Rut á að baki 54 leiki í efstu deild með Fylki og HK/Víkingi og skoraði í þeim 12 mörk. Samtals hefur hún spilað 155 leiki í meistaraflokki með Aftureldingu, Aftureldingu/Fram, HK/Víkingi og Fylki í mótum á vegum KSÍ og skorað 34 mörk. Þá á hún að baki 23 leiki með U19 og U17 landsliðum Íslands.

Dóra Sif Sigtryggsdóttir, formaður stjórnar Þórs/KA, segir fagnaðarefni fyrir félagið að fá Evu Rut til Þórs/KA. „Við erum sannfærð um að Eva Rut muni styrkja hópinn okkar hjá Þór/KA fyrir komandi átök og hlökkum mikið til að kynnast henni og bjóða hana velkomna í félagið,“ segir Dóra Sif á vef Þórs/KA.

Vefur Þórs/KA