Fyrirtækið Heilsuvernd
Ákveðið að hefja endurbætur á Hlíð
19.08.2023 kl. 10:30
Ákveðið hefur verið að hefjast handa við endurbætur á hjúkrunarheimilinu Hlíð við Austurbyggð á Akureyri. Loksins, loksins munu án efa margir hugsa.
Mikið hefur verið fjallað um ástand húsnæðisins síðustu misseri á Akureyri.net, m.a. 20. mars á þessu ári. Þar segir að fram hafi komið enn frekari upplýsingar um að húsnæðið sé heilsuspillandi og að tafarlausra aðgerða sé þörf og einnig mælt með lokunum hluta húsnæðisins.
Teitur Guðmundsson, forstjóri Heilsuverndar sem rekur hjúkrunarheimilin á Akureyri fyrir Sjúkratryggingar Íslands, upplýsir að nú dragi loks til tíðinda en reyndar liggur ekki endanlega ljóst fyrir hvenær verkið hefst. Teitur upplýsir að Heilsuvernd hafi átt góðan fund með fulltrúum heilbrigðisráðuneytisins vegna ástandsins á Hlíð.
Margra mánaða vinna
„Við höfum gengið á eftir því um nokkuð langt skeið að fá framkvæmdaáætlun í farveg og lagfæringar á húsnæðinu svo við getum nýtt það sem skyldi,“ segir Teitur og bætir við: „Loksins eru hlutir að hreyfast og erum við þakklát fyrir það, en nú er gert ráð fyrir að fara í vinnu við þak og glugga sem og einnig innanhúss í kjölfar útboðs. Það er ljóst að verkefnið mun standa í marga mánuði og tilfærsla verður heilmikil og mun reyna áfram á þolrifin. Við vonumst samt til að þetta gangi hratt og vel fyrir sig svo við getum nýtt lokuð rými að nýju og tekið á móti þeim sem þurfa svo sannarlega á þjónustu okkar að halda,“ segir Teitur á Facebook síðu sinni.
Hann segir ennfremur um fundinn: „Þá náðist árangur varðandi tekjutapið sem skapast hefur samhliða skertri nýtingu sem eru vitaskuld afar góð tíðindi til viðbótar. Við höfum þurft að berjast nokkuð fyrir þessu og fært góð rök máli okkar til stuðnings, sem hefur skilað þessum árangri. Þannig að þetta var góður dagur, sannarlega.“
Gott samstarf en stundum óasammála
Teitur þakkar íbúum Hlíðar, aðstandendum þeirra og starfsfólki þolinmæðina „og styrkinn sem felst í því að samtaka tekst okkur að yfirstíga stærstu hindranir. Ég hef aldrei efast um að það myndi takast að ná þessu fram og við næðum áheyrn og skilningi.“
Að endingu segir Teitur: „Þá er rétt að taka fram að við höfum verið í mjög góðu samstarfi við alla aðila málsins þó við höfum á stundum verið ósammála, er nú að mínu viti komin farsæl lausn. Við þökkum kærlega fyrir það og hlökkum til frekari verkefna og uppbyggingar.“
- Frétt Akureyri.net 20. mars á þessu ári: Ástandið á Hlíð verra en talið var ...