Fara í efni
Fyrirtækið Heilsuvernd

Akureyrarskátarnir héldu veglega hátíð

SÖFNIN OKKAR – XLVIII

Frá Minjasafninu á Akureyri_ _ _

Akureyri.net heldur áfram að opna dyr safnanna í bænum lesendum til fróðleiks og skemmtunar. Það er gert vikulega, á fimmtudögum.

Minjasafnið á Akureyri varðveitir gríðarlegan fjölda ljósmynda. Þar er til dæmis að finna þessa skemmtilegu mynd sem Júdit Jónbjörnsdóttir, barnakennari og skátaforingi, tók við Glerá 4. júní árið 1967.

„Mörg þúsund manns úr bæ og nágrenni söfnuðust saman á hátíðarsvæði Akureyrarskátanna við Glerá á sunnudaginn,“ segir í forsíðufrétt Akureyrarblaðsins Dags þriðjudaginn 6. júní. „En þar var minnst hálfrar aldar afmælis skátastarfs á Akureyri. Og svo virtist, sem flestir bílar bæjarbúa væru í nágrenni þessa staðar. Veður var hlýtt og kyrrt og fólk undi sér vel meðal skáta, sem gerðu daginn ógleymanlegan.“

Dagur segir: „Sennilega hefur fáum bæjarbúum dottið það í hug áður, að Glerárgil væri eins ákjósanlegt hátíðarsvæði og raun ber vitni. En skátarnir opnuðu augu almennings að þessu leyti. Og nú geta menn hugleitt hvernig bezt má auka yndi staðarins með trjárækt, vegalagningu o. fl. Glerá skipti hátíðarsvæðinu í tvennt, en skátar settu á hana myndarlega göngubrú og var umferð um hana mjög mikil. Allt var hátíðarsvæðið fánum og flöggum prýtt, mörg hlið sett upp svo og tjaldbúðir. Sjálfir voru skátar hvarvetna að störfum, stjórnuðu umferðinni, sem öll gekk greiðlega og höfðu auk þess ótalmargt að sýna samkomugestunum, bæði ungum og gömlum.“

„50 ára“

Í Degi er drepið á það helsta sem fram fór á hátíð skátanna: „Flokkakeppni í skátaíþróttum, sýning á skátastörfum fyrri tíma og nú, sýndar voru bækur um málefni skáta frá ýmsum löndum, ennfremur munir frá skátastarfinu í bænum, útbýtt var bæklingi um almenn skátastörf, minjagripasala fór fram, einnig veitingasala, sumt bakað í opnum hlóðum og allt selt við vægu verði. Mikill auglýsingaturn hafði verið reistur og dýrasýningu komið upp. Krakkar fengu að koma á hestbak og sitja í gamalli ökukerru. Settur var upp barnaleikvöllur með gæzlu, sandkössum og leiktækjum, ennfremur íþróttavöllur fyrir knattleiki. Enn má nefna skotbakka og cirkustjald, myndastofu og draugahús.“

Að kvöldi enduðu hátíðahöldin með flutningi bundins máls um stofnun skátafélaga í bænum og störf skáta og auk þess var sagan rakin í óbundnu máli. Á milli voru sungnir skátasöngvar og ýmsir fulltrúar eldri skáta komu fram og fluttu ávörp, m. a. Viggo Öfjord stofnandi skáta
félagsins. Að lokum var komið fyrir sjálflýsandi stöfum „50 ára“ í klettabelti ofan við hátíðarsvæðið og 50 flugeldum var skotið á loft. Kvöldsöngur skáta var sunginn og leikinn á horn.

„Á Akureyri eru um 400 skátar. Þeir njóta trausts og vinsælda í bænum. Hátíð þeirra í Glerárgili fór svo vel fram, að til sjaldgæfrar fyrirmyndar má teljast. Hafi þeir bæði heiður og þökk,“ segir í Degi.