Fara í efni
Fyrirtækið Heilsuvernd

„Það þýðir ekki að ætla sér að geyma farþega“

SÖFNIN OKKAR – 58

Frá Flugsafninu á Akureyri_ _ _

Akureyri.net heldur áfram að opna dyr safnanna í bænum lesendum til fróðleiks og skemmtunar. Það er gert vikulega, á fimmtudögum.

Flugsafn Íslands varðveitir tugþúsunda ljósmynda sem eru mikilvægar heimildir um flugsögu okkar Íslendinga. Meðal þess sem finna má í safninu eru ljósmyndir Jóhannesar Stefánssonar áhugaljósmyndara (1951-2022) sem tók ógrynni af myndum á Akureyrarflugvelli um langt árabil.

Safngripur vikunnar, eða öllu heldur ljósmynd vikunnar, er einmitt tekin á Akureyrarflugvelli þann 28. maí 1993. Á henni má sjá Twin Otter flugvél Flugfélags Norðurlands, nýkomna úr Grænlandsflugi. Aftan á myndina hefur Jóhannes skrifað:

TF-JMD á skíðum + Ameríkanar. Sigurður Aðalsteinsson forstjóri FN ýtir á eftir vagninum.

Í upphafi mánaðar var fagnað 70 ára afmæli Akureyrarflugvallar. Flugfélag Norðurlands er stór hluti af sögu hans en það hafði lengi aðstöðu á vellinum. Síðla árs 1974 keyptu fyrrverandi starfsmenn Norðurflugs félagið af Tryggva Helgasyni sem hafði stofnað það fimmtán árum áður, og breyttu nafni þess í Flugfélag Norðurlands. Nýtt félag með því nafni tók til starfa 1. maí 1975, þegar Flugfélag Íslands keypti 35% hlut í félaginu. Sigurður Aðalsteinsson flugmaður var ráðinn framkvæmdastjóri og var flogið til margra áfangastaða frá Akureyri.

Í viðtali akureyrska vikublaðsins Íslendings í tilefni af stofnun félagsins í maí 1975, var Sigurður spurður út í flugáætlanir félagsins og hvort raunhæft væri að halda uppi svo mörgum áætlunarferðum, þá sérstaklega til staða eins og Þórshafnar og Raufarhafnar. Þar sagði Sigurður þessi fleygu orð: „Við erum búnir að sjá að það þýðir ekki að ætla sér að geyma farþega. Fólk fer leiðar sinnar á þeim degi sem það ætlar sér með því farartæki sem það nær til, en það bíður ekki eftir áætlunarflugi dögum saman.“

Árið 1997 sameinaðist Flugfélag Norðurlands og Flugleiðir innanlands og var nafninu breytt í Flugfélag Íslands.

Flugsafnið hlaut fyrr á árinu styrk úr Safnasjóði til skönnunar og skráningar á hluta af ljósmyndum safnsins og er nú unnið að því hörðum höndum. Þannig verður þessi fjársjóður aðgengilegri bæði starfsfólki safnsins til notkunar í faglegu starfi þess, sem og almenningi.

Heimild: Íslendingur, 15. tbl., 1. maí 1975, sjá hér: https://timarit.is/page/5171023?iabr=on