Fara í efni
Frjálsíþróttir

UFA fólkið er hópur ársins hjá FRÍ

UFA félagar að störfum á Meistaramóti Íslands á Þórsvellinum í sumar. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Frjálsíþróttasamband Íslands (FRÍ) tilkynnti í gær um margvíslegar viðurkenningar fyrir árið sem er að líða. Þar á meðal að félagar í Ungmennafélagi Akureyrar er „hópur ársins“ að mati FRÍ.

„Hópur ársins er allt það frábæra fólk sem stendur á bakvið UFA.“ FRÍ segir hópinn hafa sýnt mikinn dugnað í sumar þegar hann skipulagði og hélt 94. Meistaramót Íslands með glæsibrag. „Upphaflega átti mótið að fara fram á höfuðborgarsvæðinu en erfitt reyndist að finna löglegan keppnisvöll. UFA steig því inn með skömmum fyrirvara svo Meistaramótið gæti farið fram,“ segir á heimasíðu FRÍ.

Þrautseigja og dugnaður

„Árið 2020 hefur verið óvenjulegt en það hefur ekki stoppað okkar fólk frá því að ná frábærum árangri. Þrautseigja og dugnaður er einkennandi fyrir framúrskarandi íþróttafólk og þrífst það í mótlæti eins og árið hefur verið. Vegna þjóðfélagsaðstæðna er ekki hægt að halda hefðbundna uppskeruhátíð ... “ segir á heimasíðu FRÍ. Þar af leiðandi var viðurkenningum ársins gerð hér skil á vefnum.

Akureyringar fengu fleiri viðurkenningar í gær.

  • Hafdís Sigurðardóttir er stökkvari ársins og fær þá viðurkenningu fyrir árangur í langstökki á Reykjavík International Games, þar sem hún sigraði með stökki upp á 6,37 metra. Það var lengsta stökk hennar á árinu.
  • Rannveig Oddsdóttir var valin utanvegahlaupari ársins í kvennaflokki, en hún sigraði í Laugavegshlaupinu á fimm klukkustundum og 37 sekúndum og setti um leið brautarmet.
  • Þá hlaut Kolbeinn Höður Gunnarsson, sem nú keppir fyrir FH, Jónsbikarinn, sem veittur er fyrir besta spretthlaupsafrekið ár hvert. Kolbeinn fær þann heiður í ár fyrir Íslandsmet í 200 metra hlaupi innanhúss. Kolbeinn kom í mark á tímanum 21,21 sekúndu. Metið setti hann á móti í Bandaríkjunum þar sem hann keppti fyrir The University of Memphis. Fyrir sama afrek telst Kolbeinn spretthlaupari ársins.
  • Anna Sofia Rappich besta afrek öldunga á árinu.

Þrír Akureyringanna sem fengið einstaklingsviðurkenningu: Hafdís Sigurðardóttir, Rannveig Oddsdóttir og Kolbeinn Höður Gunnarsson.

Hluti fjölmargra starfsmanna á Meistaramótinu í sumar. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson.