Íslandsmet og Baldvin Norðurlandameistari
![](/static/news/lg/baldvin-thor-nota.jpg)
Baldvin Þór Magnússon úr Ungmennafélagi Akureyrar varð í dag Norðurlandameistari í 3.000 metra hlaupi innanhúss, stórbætti eigið Íslandsmet frá því í janúar og náði í leiðinni lágmarki fyrir Evrópumeistaramótið í mars.
Norðurlandamótið fer fram í Espoo í Finnlandi. Baldvin hljóp vegalengdina í dag á 7:39,94 mín. – 7 mínútum og 39,4 sekúndum. Metið frá því í janúar var 7:45,13 mín. þannig að hann bætti það um hvorki meira né minna en tæpar sex sekúndur!
Annar í hlaupinu í dag varð Norðmaðurinn Filip Ingebrigsten, fyrrverandi Evrópumeistari í 1.500 metra hlaupi. Þeir Baldvin háðu mikið einvígi í Espoo og kom Norðmaðurinn þremur sekúndubrotum á eftir okkar manni í mark; Ingebrigsten hljóp á 7:39,97 mínútum og tryggði sér einnig þátttökurétt á EM sem fram fer í Hollandi 6.-9. mars.
Óhætt er að segja að Baldvin byrji árið með glæsibrag. Íslandsmetið var það þriðja sem hann setur frá áramótum; Baldvin bætti metið í 3.000 m hlaupi öðru sinni í dag sem fyrr segir og hann sló einnig eigið met í 1.500 metra hlaupi á Reykjavíkurleikunum fyrir hálfum mánuði.
Baldvin á níu Íslandsmet
Baldvin Þór á nú Íslandsmet í fimm greinum utanhúss:
- 1500 m – 3:39,90 mín – sett í júlí 2024
- 3000 m – 7:49,68 mín – sett í júlí 2023
- 5000 m – 13:20,34 mín – sett í apríl 2024
- 5 km götuhlaup – 13:42,00 mín – sett í mars 2024
- 10 km götuhlaup – 28:51,00 mín – sett í október 2023
Hann á fjögur Íslandsmet innanhúss:
- 1500 m – 3:41,05 - 4. febrúar 2024
- 1 míla – 3:59,60 - 14. janúar 2023
- 3000 m – 7:39,94 - 9. febrúar 2025
- 5000 m – 13:58,24 - 24. febrúar 2023