Hafdís og Birnir Vagn best hjá UFA í fyrra
Hafdís Sigurðardóttir og Birnir Vagn Finnsson hafa verið kjörin íþróttafólk Ungmennafélags Akureyrar fyrir árið 2020.
Hafdís er í fararbroddi íslenskra langstökkvara og varð Íslandsmeistari bæði innan- og utanhúss á síðasta ári. Hún sigraði jafnframt í langstökki á Reykjavík International Games.
Birnir Vagn vann alls sjö Íslandsmeistaratitla í sínum aldursflokki á síðasta ári; þrjá innanhúss og fjóra utanhúss. Þar bar hæst Íslandsmeistaratitill í tugþraut. Hann vann einnig til silfurverðlauna í karlaflokki í langstökki á Meistaramóti Íslands. Birnir Vagn setti auk þess Íslandsmet/aldursflokkamet í 60 metra hlaupi og komst í úrvalshóp FRÍ í tíu greinum auk þess sem hann náði lágmarki fyrir Norðurlandamót unglinga í tugþraut.
Í tilkynningu frá UFA kemur einnig fram að Sigurlaug Anna Sveinsdóttir og Róbert Mackay fengu hvatningarverðlaun þjálfara og Anna Sofia Rappich fékk hvatningarverðlaun UFA í flokki öldunga.