Fara í efni
Frjálsíþróttir

Íslandsmet í 5000 m og brons á EM!

Baldvin Þór Magnússon á Meistaramóti Íslands á Akureyri á dögunum. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Baldvin Þór Magnússon úr UFA setti Íslandsmet í 5.000 metra hlaupi í dag á Evrópumeistaramóti 23 ára og yngri í Tallinn í Eistlandi. Baldvin hljóp á 13 mínútum og 45 sekúndum; 13:45,00, og varð í þriðja sæti – nældi í bronsverðlaun. Baldvin er þar með fyrsti íslenski karlmaðurinn sem vinnur til verðlauna á EM 23 ára og yngri.

Baldvin bætti Íslandsmet Hlyns Andréssonar í 5.000 m hlaupi um hvorki meira né minna en 12 sekúndur fyrr á árinu vestur í Bandaríkjunum, hljóp þá á 13:45,66. Hlynur náði metinu aftur fyrir sléttri viku þegar hann hljóp á 13:45,20 en Baldvin klippti 20 sekúndubrot af því í dag. Metið er sem sagt ekki langlíft um þessar mundir og spennandi verður að sjá hvað þeir félagar gera á næstunni.

Smellið hér til að sjá nánari upplýsingar um hlaupið.

Baldvin strax eftir hlaupið í dag og svo á verðlaunapallinum. Þjóðverjinn Mohamed Mohumed sigraði á 13:38,69 en í öðru sæti, sá til vinstri, varð Spánverjinn Aarón Las Heras á 13:43,14