Frjálsíþróttir
Baldvin vann í fyrstu tilraun - tvö gull Glódísar
12.06.2021 kl. 18:45
Glódís Edda Þuríðardóttir og Baldvin Þór Magnússon á Meistaramóti Íslands í dag. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson.
Akureyringar urðu Íslandsmeistarar í þremur greinum og nældu þar með í þrenn gullverðlaun á fyrri keppnisdegi Meistaramóts Íslands í frjálsíþróttum á Þórsvellinum í dag. Keppendur Akureyrarfélaganna tveggja unnu til alls átta verðlauna.
GULL
- Glódís Edda Þuríðardóttir úr Kraftlyftingafélagi Akureyrar (KFA) vann til tvennra gullverðlauna, sigraði bæði í 100 metra grindahlaupi og 400 metra hlaupi. Tími hennar í grindahlaupinu var 13,46 sek. sem er undir mótsmetinu, en gildir ekki þar sem meðvindur var allt of mikill. Tími Glódísar í 400 m hlaupinu var 56,90 sek.
- Baldvin Þór Magnússon úr Ungmennafélag Akureyrar (UFA) varð Íslandsmeistari í 1500 m hlaupi í fyrstu keppni sinni á braut hérlendis, sem kom að sjálfsögðu ekki á óvart. Hann bætti 39 ára gamalt Íslandsmet í greininni um miðjan apríl í Bandaríkjunum – hljóp þá á 3:40,74 mín. – en tími hans í dag var 4:01,20 mín. Baldvin lagði áherslu á sigra í dag en ekki á tímann því heldur kalt var í veðri og töluverður vindur. Þá fékk hann í raun enga keppni.
SILFUR
- Andri Fannar Gíslason, KFA, varð annar í 110 m grindahlaupi. Hljóp á 15,23 sek en Ísak Óli Traustason úr UMSS varð Íslandsmeistari á 15,05 sek.
- Sigþóra Brynja Kristjánsdóttir, UFA, varð önnur í 1500 m hlaupi á 4:49,55 mín en Elín Sóley Sigurbjörnsdóttir úr FH varð Íslandsmeistari á 4:49,25 mín.
BRONS
- Birnir Vagn Finnsson, UFA, varð þriðji í hástökki – stökk 1,82 m. Kristján Viggó Sigfinnsson, Ármanni, varð Íslandsmeistari, stökk 2,12 m.
- Andri Fannar Gíslason, KFA, fékk önnur verðlaun sín í dag er hann varð þriðji í 400 m hlaupi á 52,93 sek. Sæmundur Ólafsson úr ÍR varð Íslandsmeistari á 49,80 sek.
- Guðmundur Hólmar Jónsson, UFA, varð þriðji í spjótkasti með 59,20 m. Dagbjartur Daði Jónsson úr ÍR varð Íslandsmeistari með 79,57 m, sem er persónulegt met, og annar varð FH-ingurinn Sindri Hrafn Guðmundsson með 74,99 m.
Þá er vert að geta þess að Akureyringurinn Kolbeinn Höður Gunnarsson, sem keppir fyrir FH, varð Íslandsmeistari í 200 m hlaupi á 21,61 sek. og í 4 x 100 m boðhlaupi. Sveit FH sigraði á 43,03 sek.