Fara í efni
Forseti Íslands

Góðgæti af bestu gerð – Lindu súkkulaði

SÖFNIN OKKAR – XLI

Frá Iðnaðarsafninu á Akureyri_ _ _

Akureyri.net heldur áfram að opna dyr safnanna í bænum lesendum til fróðleiks og skemmtunar. Það er gert vikulega, á fimmtudögum.

Það þekkja flestir einhverjar sælgætisvörur sem framleiddar voru á Akureyri áratugum saman. Lindubuff, Konga, Kaffisúkkulaði og konfektið, meira að segja Pez var framleitt hjá verksmiðjunni Lindu. Þá er stórhýsið ekki síður þekkt og jafnvel óveður frá fyrri tíð, en það er önnur saga.

Linda hóf starfsemi árið 1948 að Hólabraut 16 á Akureyri. Stofnandi og framkvæmdastjóri lengst af var Eyþór Tómasson. Það var tilviljun að Eyþór stofnaði sælgætisverksmiðju og kannski smá dass af þrjósku og þrautseigju. „Þannig var að ég átti og rak verslunina London í Skipagötu 6. Þegar skömmtunartímabilið kom var okkur skammtað 10 kíló af suðusúkkulaði frá Siríus. Ég hef víst aldrei þolað að láta segja mér fyrir verkum og þess vegna datt mér í hug að best væri að framleiða súkkulaðið sjálfur og hófst handa við það af fullum krafti,“ segir Eyþór í viðtali við blaðamann Dags árið 1987.

Eyþór Tómasson stofnandi Lindu og framkvæmdastjóri lengst af.

Þetta gerðist þó ekki allt með þeim hraða sem Eyþór hefði kosið og tók ein þrjú ár að fá eina og eina vél. Á þessum tíma voru allar vörur skammtaðar og þekkja þurfti rétta fólkið til að fá fljótari fyrirgreiðslu ef hún fékkst þá yfirhöfuð „í gegnum þessar klíkur sem þá voru í Reykjavík,“ eins og Eyþór orðaði umbúðalaust í fyrrnefndu viðtali. Starfsemin jókst jafnt og þétt og fór fjöldi starfsfólks úr 8 í 70-80 þegar best lét og því ekki að ástæðulausu að byggja þurfti stærri verksmiðju.

Árið 1961 flutti Linda hf. í stórhýsi sitt á Hvannavöllum 14 sem reist hafði verið fyrir verksmiðjuna og dugðu ekki minna en þrjár hæðir með fullkomnum vélasamstæðum og úrvals aðstöðu alls 3000 fermetrar og 11.000 rúmmetrar. Verksmiðjan var skipulögð af þýskum verkfræðingum því vélarnar þurftu að vera rétt staðsettar ef ná átti sem mestri framleiðni. Umsetning og tegundafjöldi jókst, framleiddar voru fjölmargar gerðir súkkulaðis og konfekts, Pez-töflur í stórum stíl, tyggjó, ískex o.fl.

Árið 1993 keypti Sælgætisgerðin Góa í Reykjavík Lindu. Framleiðslu á Akureyri var hætt 1995 þó margar af vörum Lindu séu enn framleiddar undir merkjum Góa-Linda.

Ljósmyndir, vörur og vélar frá Lindu má sjá á Iðnaðarsafninu á Akureyri sem er opið daglega 11-17.