Fara í efni
Forseti Íslands

Saga mikilvægs flugs við síldarleit

SÖFNIN OKKAR – 54

Frá Flugsafninu á Akureyri_ _ _

Akureyri.net heldur áfram að opna dyr safnanna í bænum lesendum til fróðleiks og skemmtunar. Það er gert vikulega, á fimmtudögum.

Síldarleit úr lofti á Íslandi hófst árið 1928, sama ár og Flugfélag Íslands nr. 2 var stofnað. Var þá gerð tilraun í eina viku í ágústmánuði og þótti takast vel. Útgerðarmenn fögnuðu framtakinu sem var þá greitt af atvinnumálaráðuneytinu, og tóku þátt í kostnaði sem af leitinni hlaust sumarið 1929.

Árið 1930 voru sett lög um skipulagsbundna síldarleit úr lofti með stofnun flugmálasjóðs og var flogið síldarleitarflug sumrin 1930 og 1931. Flugfélag Íslands nr. 2 hætti rekstri 1931 og var þá gert hlé á síldarleit úr lofti. Alexander Jóhannesson, einn af helstu forvígismönnum flugs á Íslandi og einn af stofnendum félagsins, ritaði grein í Andvara 1932 um síldarleitina og þar sagði m.a.: „Enginn sanngjarn maður mun neita því, að síldarleit Íslendinga úr lofti þennan stutta tíma hefir orðið að gagni, og að leitin hefir tekið framförum frá ári til árs. […] Enginn vafi er á því, að ef síldarleit þessari verður haldið áfram á ákomnum árum, mun hún færa Íslendingum nánari vitneskju um síldargöngur, og getur sú þekking orðið að ómetanlegu gagni.“

Flugfélag Akureyrar, síðar Flugfélag Íslands, var stofnað árið 1937. Ári síðar hóf fyrsta flugvél félagsins, TF-ÖRN, sig á á loft og sinnti hún m.a. síldarleitarflugi. Síldarleitarflug var mikil búbót fyrir Flugfélagið, og má með sanni segja að það hafi skipt sköpum í rekstri flugfélagsins Loftleiða á upphafsárum þess þegar það var stofnað árið 1944.

Á Flugsafni Íslands eru varðveittir tveir gripir sem segja sögu þessa mikilvæga flugs. Annar þeirra er dagbók síldarleitarflugs Flugfélags Íslands á árunum 1941 til 1943, og dulmálslykill milli síldveiðiskipanna og flugvélarinnar, síldarverksmiðjanna og síldarútvegsnefndar.

Sumarið 1939 var fyrirskipað að dulmálslykill skyldi tekinn í notkun, enda voru ekki einungis Íslendingar að hlusta á sendingarnar til síldveiðiskipanna sem voru á veiðum. Í dulmálslyklinum eru 808 lyklar sem notast skyldi við og ýtarlegar leiðbeiningar er að finna á upphafssíðum hans.

Dagbók síldarleitarflugs Flugfélags Íslands er úr fórum Jóhannesar Snorrasonar flugstjóra, sem ólst upp á Akureyri og tók sín fyrstu skref í flugi með Svifflugfélagi Akureyrar. Jóhannes lærði vélflug hjá Erni Ó. Johnson flugmanni og flaug með honum síldarleitarflug.

Í dagbókinni er að finna upplýsingar um síldarleitarflug félagsins; fjölda ferða hvert sumar, flugleiðir, flugtíma auk stutts yfirlits yfir hvert flug sem flugstjórinn færði til bókar.

Þannig segir t.d. frá flugi 20. ágúst 1941:

27. ferð. Fimmtudaginn 20/8 var lagt af stað í síldarleit frá Akureyri kl. 16:15. Fyrst var komið við á Siglufirði.

Síðan flogið: Haganesvík, Málmey, Lundey, Ingveldastaðahólma, Ketu, Skagatá, Skallarif, Hofsgrunn, Vatnsnes, Heggstaðanes, Kaldrananes og loks þvert yfir Húnaflóa, Skagaheiði til Siglufjarðar og Akureyrar. Komið til Ak. kl. 20:35.

Veður: Haganesvík: NA3, Skagafj: NA3, Keta, Skagatá, Skallarif ANA4, talsverð alda, Húnafl. austanv. A og NA1, Húnaflói vestanv. NA4, alda. Skygni allstaðar ágætt og loft létt skýjað.

Síld sást hvergi.

Skip sáust nokkur á leið vestur og 3 vestan við Skaga. Enginn í bátum.

Kristinn Jónsson og Finnur Jónsson með.

Örn Ó. Johnson

Flugtími: 3:20 klst.

Þó alltaf hafi verið lagt af stað með þá von í brjósti að síldartorfur fyndust, þá má ekki vanmeta upplýsingarnar um að engin síld hafi fundist. Með þeim var hægt að koma í veg fyrir að skip héldu á svæði þar sem enga síld var að finna, og dýrmætur tími og peningur sparaðist.

En að öllum líkindum hafa menn verið upplitsdjarfari þegar þeir gátu fært útgerðum og sjómönnum þær fregnir að síld hafi fundist, eins og eftir flugið 20. júlí 1943:

20. ferð. Þriðjudag 20. júlí 1943 kl. 5:10 var lagt í síldarleit.

Flugleið: Gjögur, Flatey, Lundey, Tjörnes, Mánáreyjar,Rauðanúp og 10 m. Tjörnes 5 m N.V. Flatey, Siglufjörð, Haganesvík, Hrísey, Ak.

Síld sást kl. 5:30 20 torfur N. og N.V. af Skagatá grunnt og 1 ½ m út, 8 skip að veiðum og flest að fara í báta. Kl. 5:35 sáust 4 torfur grunnt undan Hvalvatnsfjarðarmynni. Kl. 5:55 sáust 12-15 torfur grunt og V. Breiðavíkur, mörg skip að veiðum og í bátum. Þarna virtist vera allmikil síld, en óstöðug. Kl. 8:00 sáust 3 torfur 2 m V Almenningsnöf 2 m N. Melkróks.

Kl. 10:50 sáust í torfur grunnt við Norðurenda Hríseyjar, 8 torfur vestan hennar, 15 torfur á sundinu milli Syðsta bæjar og lands. 30 torfur á svæði Höfðahverfi Hauganes og langleiðina inn að Hjalteyri. 3 skip að veiðum þar og í bátum.

Síldarleitarflug voru farin allt þar til að síldarævintýrinu lauk í lok sjöunda áratugs síðustu aldar, og margsönnuðu gildi sitt.

Heimild: Síldarleit úr lofti 1931, grein eftir Alexander Jóhannsson í Andvara 1932, sjá hér: https://timarit.is/page/4319416?iabr=on