Fara í efni
Flugsafn Íslands

Vinnum með öllum sem vilja hlúa að sögunni

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, skoðar Iðnaðarsafnið í opinberri heimsókn forsetahjónanna til Akureyrar á siðasta ári. Ljósmynd: Þorgeir Baldursson

Minjasafnið á Akureyri hefur tekið að sér rekstur og faglega umsjón með Iðnaðarsafninu á Akureyri, eins og Akureyri.net greindi frá í gær. „Saga iðnaðar er stór þáttur í sögu Akureyrar sem við munum sinna af alúð og metnaði. Þessari sögu viljum við gera enn betur skil með breyttum áherslum í starfi og miðlun safnsins,“ segir Haraldur Þór Egilsson, safnstjóri Minjasafnsins, í samtali við Akureyri.net í tilefni tímamótanna.

Góðu fréttirnar eru að starfi Iðnaðarsafnsins og þeim menningarverðmætum sem það varðveitir er borgið til framtíðar, segir Haraldur. Safnið verður því áfram opið en óvissa hafði lengi verið uppi um framtíð þess, vegna bágs fjárhags. Akureyrarbær sem er einn eigenda safnsins, hefur haldið starfinu uppi síðustu árin meðan næstu skref voru metin „en stígur nú fram með myndarlegum hætti og tryggir grundvöll þess.“

Haraldur Þór Egilsson safnstjóri Minjasafnsins á Akureyri. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

„Það eru spennandi tímar framundan,“ segir Haraldur. „Starfsfólk Minjasafnsins mun rýna í og gera breytingar á sýningum Iðnaðarsafnsins eftir því sem fram líða stundir. Það mun ekki gerast allt í einu enda ekki þörf á neinum kollsteypum,“ segir hann. „Þeir sem staðið hafa að Iðnaðarsafninu frá upphafi hafa unnið af eljusemi við að varðveita söguna og miðla henni. Fyrir það eiga þeir þakkir skilið. Nú tekur starfsfólk Minjasafnsins við verkefninu og setur sitt mark á sýningar og starfsemi Iðnaðarsafnsins. Raunar er þetta í annað sinn sem starfsfólk Minjasafnsins hefur umsjón með starfi Iðnaðarsafnsins frá stofnun þess.“

Haraldur leggur áherslu á að starfsfólk Minjasafnsins sé tilbúið að vinna með öllum þeim sem vilja hlúa áfram að iðnaðarsögu Akureyrar og varðveislu hennar. „Við viljum leita til samfélagsins um hugmyndir og auðvitað frá öllum gestum safnsins hverskonar iðnaðarsafn fólk vill sjá,“ segir hann.

Safnstjórinn ítrekar að ekki muni allt gerast í einu enda sé samningurinn til þriggja ára. „Okkur langar að gera sýningarnar aðgengilegri og fjölskylduvænar. Til þess þurfum við tíma. Við breyttum sýningaráætlun hjá okkur og færðum fyrirhugaða sýningu á ljósmyndum úr iðnaðarsögunni fremst í röðina og höfum hug á að bjóða upp á leiðsagnir og fyrirlestra í tengslum við hana. Sýningin verður opnuð 14. mars  næstkomandi klukkan 17.00 á Minjasafninu og verður Iðnaðarsafnið þá opið frá og með helginni 16. til 17. mars. En á meðan breytingar verða gerðar á sýningum verða þær ekki opnar nema um helgar fram að sumardeginum fyrsta þegar stefnt er að því að safnið verði opið daglega.“

Þá minnir Haraldur á að miði á Iðnaðarsafnið gildi einnig á önnur söfn sem heyra undir Minjasafnið og gildi út árið. „Við viljum að fólk heimsæki öll okkar söfn og komi sem oftast. Þess vegna er verðið jafn lágt og raun ber vitni.“ Miðinn kostar 2.500 krónur og gildir allt árið.

Iðnaðarsafnið verði eflt og fest í sessi