Fara í efni
Flugsafn Íslands

Iðnaðarsafnið verði eflt og fest í sessi

Samkomulagið undirritað. Frá vinstri: Sigfús Karlsson formaður stjórnar Minjasafnsins, Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri, og Heimir Kristinsson varaformaður Byggiðn. Tryggvi Jóhannsson varaformaður Einingar-iðju var fjarverandi og undirritaði samkomulagið rafrænt. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Minjasafnið á Akureyri hefur formlega tekið við rekstri Iðnaðarsafnsins í bænum. Bæjarráð Akureyrar ákvað síðla síðasta árs að sú leið skyldi farin og samkomulag þar um var undirritað í gær.

Annars vegar var undirritað samkomulag milli meirihluta stofnaðila Iðnaðarsafnsins á Akureyri, sem eru Akureyrarbær, verkalýðsfélagið Eining-Iðja og Byggiðn - félag byggingamanna, um að fela Minjasafninu á Akureyri að annast rekstur Iðnaðarsafnsins næstu þrjú árin. Hinsvegar  var undirritaður þjónustusamningur sem Akureyrarbær gerir við Minjasafnið um verkefnið.

Meginmarkmið samkomulagsins og samningsins eru meðal annars þessi, að því er segir í tilkynningu:

  • Festa Iðnaðarsafnið í sessi og efla það til framtíðar
  • Viðhalda og þróa áfram það merka frumkvöðlastarf sem Iðnaðarsafnið og aðstandendur þess hafa staðið fyrir frá stofnun þess
  • Tryggja áframhaldandi samfellu í starfsemi Iðnaðarsafnsins, öruggan rekstur og varðveislu safngripa
  • Nýta fagþekkingu og reynslu starfsmanna Minjasafnsins í þágu Iðnaðarsafnsins

Akureyrarbær greiðir árlega 12 milljónir króna til verkefna sem kveðið er á um í samningnum, leggur til núverandi húsnæði Iðnaðarsafnsins og greiðir rekstrarkostnað þess. Rekstur Iðnaðarsafnsins verður samþættur rekstri Minjasafnsins, þannig stýrir safnstjóri Minjasafnsins þeim báðum og allt starfsfólk mun koma að rekstri, sýningarhaldi og miðlun á Iðnaðarsafninu.

„Stjórn Minjasafnsins ber í samræmi við það ábyrgð á daglegum rekstri Iðnaðarsafnsins,“ segir í tilkynningu frá Akureyrarbæ. „Stjórn Iðnaðarsafnsins starfar áfram á samningstímanum en í breyttu hlutverki. Stjórnin tekur þátt í stefnumótun og verður í ráðgjafar- og eftirlitshlutverki gagnvart verkefnum þjónustusamningsins.“

Styr hefur staðið um þessar breytingar eins og Akureyri.net hefur fjallað ítarlega um í fréttum. Heimir Kristinsson, varaformaður Byggiðn, sem skrifaði undir samkomulagið við Akureyrarbæ í gær sagði ekkert launungarmál að stjórn Iðnaðarsafnsins hefði viljað fara aðra leið í rekstri safnsins en ákveðin hefði verið, en niðurstaða lægi fyrir og að sjálfsögðu yrði unnið samkvæmt henni.

  • Í fyrstu verður safnið opið kl. 13.00 til 16.00 um helgar á meðan starfsfólk gerir breytingar á sýningum.
  • Stefnt er að því að safnið verið opið daglega kl. 13.00 til 16.00 frá og með sumardeginum fyrsta og kl. 11.00 til 17.00 frá 1. júní næstkomandi.