Bærinn: 2 milljarða afgangur af rekstri

Rúmlega 2,2 milljarða króna afgangur varð af rekstri Akureyrarbæjar á síðasta ári. Tekjurnar voru sem sagt rúmlega tveimur milljörðum króna meiri en útgjöldin – nákvæm upphæð er 2.218.000 milljónir. Þetta kemur fram í ársreikningi bæjarins sem lagður var fram á fundi bæjarráðs í morgun. Í fjárhagsáætlun hafði verið gert ráð fyrir afgangi upp á 436 milljónir króna.
Umrædd upphæð, rúmir 2,2 milljarðar, á við alla samstæðu sveitarfélagsins. Annars vegar er um að ræða aðalsjóð, Fasteignir Akureyrarbæjar, Eignasjóð gatna og Umhverfismiðstöð. Hins vegar fyrirtæki í eigu bæjarins, s.s. Félagslegar íbúðir, Strætisvagna Akureyrar, Hlíðarfjall, Hafnasamlag Norðurlands og Norðurorka.
Niðurstaða rekstrar A-hluta var jákvæð um 834 milljónir króna en fjárhagsáætlun hafði gert ráð fyrir neikvæðri niðurstöðu upp á 632 milljónir.
- Til A hluta telst sveitarsjóður, sem er aðalsjóður sveitarfélagsins, auk annarra sjóða og stofnana er sinna starfsemi sem að hluta eða öllu leyti eru fjármögnuð með skatttekjum. Auk aðalsjóðs er um að ræða Eignasjóð gatna o.fl., Fasteignir Akureyrarbæjar og Framkvæmdamiðstöð.
- Til B hluta teljast stofnanir sveitarfélagsins og fyrirtæki sem að hálfu eða meirihluta eru í eigu sveitarfélagsins, eru reknar sem fjárhagslega sjálfstæðar einingar og þar af leiðandi að stofni til fjármagnaðar með þjónustutekjum.
Í tilkynningu frá bænum er að finna margskyns tölfræði að vanda. Þar má m.a. lesa eftirfarandi – upphæðir námundaðar við milljónir og milljarða eftir því sem við á.
- Rekstrarniðurstaða samstæðunnar fyrir fjármagnsliði og tekjuskatt var jákvæð um 3,9 milljarða króna en áætlun hafði gert ráð fyrir 2,8 milljarða kr. rekstrarafgangi.
- Meginskýringar á bættri afkomu eru áhrif lækkandi verðbólgu á árinu, hófleg hækkun lífeyrisskuldbindinga ásamt nokkurri hækkun tekna frá Jöfnunarsjóði og þjónustutekna, einkum hjá hafnasamlagi og veitum.
- Samkvæmt yfirliti um sjóðstreymi nam veltufé frá rekstri 5,7 milljörðum króna – sem er 766 milljónum kr. meira en áætlað var. Sambærileg fjárhæð árið áður var nærri 5,3 milljarðar
- Handbært fé frá rekstri nam tæpum 5,6 milljörðum króna.
- Afborgun langtímalána nam tæplega 1,6 milljarði króna.
- Ný langtímalán voru tekin fyrir 800 milljónir kr. hjá Norðurorku.
- Hækkun á handbæru fé á árinu nam 385 milljónum kr. og var handbært fé samstæðunnar í árslok tæpir þrír milljarðar.
- Veltufé frá rekstri árið 2024 í hlutfalli við tekjur nam 15,13% í samstæðunni og 9,54% í A-hluta. Árið áður voru hlutföllin 15,35% í samstæðunni og 9,75% í A-hluta.
- Heildarlaunagreiðslur með launatengdum gjöldum en án hækkunar lífeyrisskuldbindinga hjá samstæðunni voru tæpir 20 milljarðar.
- Stöðugildi voru að meðaltali 1.530 sem er fjölgun um 46 stöðugildi frá árinu áður.
- Laun og launatengd gjöld ásamt lífeyrisskuldbindingum samstæðunnar í hlutfalli við rekstrartekjur hennar voru 52,9%. Annar rekstrarkostnaður var 30,8% af rekstrartekjum.
- Skatttekjur og framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga voru liðlega 1,2 milljónir kr. á hvern íbúa en tekjur voru samtals tæplega 1,9 milljónir kr. á hvern íbúa – 1.891 þús.. Árið 2023 voru skatttekjurnar 1.138 þús. kr. á hvern íbúa og heildartekjurnar 1.737 þús. kr. á hvern íbúa.
- Samkvæmt efnahagsreikningi voru eignir sveitarfélagsins í árslok 2024 bókfærðar á 72 milljarða króna en þar af voru veltufjármunir 7,5 milljarðar.
- Skuldir sveitarfélagsins með lífeyrisskuldbindingum námu samkvæmt efnahagsreikningi tæpum 42 milljörðum króna. Þar af voru skammtímaskuldir 6,8 milljarðar.
- Fjárhagur Akureyrarbæjar er sagður mjög traustur. Skuldaviðmið samstæðunnar í árslok nam 75% samkvæmt reglum Eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga en var 80% árið áður. Skuldaviðmið í A-hluta var 54% í árslok en var 56% árið áður.
- Veltufjárhlutfallið var 1,10 í árslok 2024 en var 1,17 árið áður. Bókfært eigið fé nam 30,5 milljarðar kr. í árslok en var 27 milljarðar í árslok 2023. Eiginfjárhlutfall var 42% af heildarfjármagni á móti 40% árið áður.
Samkvæmt sveitarstjórnarlögum skal fjalla um ársreikninginn á tveimur fundum í sveitarstjórn og verður hann til umfjöllunar í bæjarstjórn 15. apríl og 6. maí næstkomandi.