Fara í efni
Fjarskipti

Bein tenging til útlanda og aukið öryggi

Glaðir í bragði. Frá vinstri, Marinó Tryggvason, stjórnarformaður Mílu, Erik Figueras Torras, forstjóri Mílu,og Þorvarður Sveinsson, framkvæmdastjóri Farice. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

„Við þurfum lítið sem ekkert að sækja suður,“ segir í smellnum texta Kristjáns frá Djúpalæk – Vor Akureyri – sem hljómsveit Ingimars Eydal söng við miklar vinsældir fyrir margt löngu.

Netnotendur á svokallaðri landsbyggð geta fljótlega sönglað þetta því eins og Akureyri.net greindi frá fyrr í dag býr fjarskiptafyrirtækið Míla sig undir að byggja upp nýja fjarskiptamiðju á Akureyri, fyrir netumferð  til og frá Íslandi. Þá mun Farice, eigandi sæstrengja milli Íslands og annarra land, bæta Akureyri við sem nýjum afhendingarstað útlandaþjónustu.

Þetta þýðir á mannamáli að netumferð þarf ekki lengur að koma við á suðvesturhorninu á leið sinni til útlanda. 

  • Til þessa hafa allir netnotendur á landinu, til að mynda á Vestfjörðum, Norðurlandi og Austfjörðum, þurft að tengjast til Reykjavíkur fyrst  jafnvel þó til staðar sé sæstrengur nær notanda.
  • Nú verða notendur á norður helmingi landsins með beina tengingu við sæstrengi til útlanda og það tekur þá styttri tími að tengjast.
  • Erik Figueras Torras, forstjóri Mílu, lýkti þessu við að íbúi á Seyðisfirði sem hygðist fljúga til London þyrfti fyrst til Keflavíkur og fljúga þaðan út. Sem er að vísu raunin (nema Seyðfirðingurinn ákveði að fljúga frá Akureyri!) en nú verður sá aukakrókur aflagður hvað netumferð varðar kjósi menn það.
  • Flæði netumferðar verður skilvirkara og samskiptaleiðir styttri, að sögn talsmanna fyrirtækjanna í dag.   

Öryggi í fjarskiptum eykst

Tíðindin voru kynnt á Akureyri í dag. Talsmenn Mílu og Farice segja vonir standa til að uppbygging netmiðju á Akureyri muni hafa mikil og góð áhrif á atvinnulífið á Norðurlandi.

  • Forsvarsmenn fyrirtækjanna segja að með nýrri netmiðju á Akureyri aukist öryggi íslenskra fjarskipta þar sem samskipti til og frá landinu eigi kost á annarri leið en gegnum suðvesturhornið. Jarðhræringar sem nú eigi sér stað á Reykjanesskaganum og í nágrenni hans séu áminning um mikilvægi þess að styrkja stoðir mikilvægra innviða svo sem netmiðjur.
  • Akureyri er á öðru jarðfræðilegu svæði og nægilega fjarlægt suðvesturhorni landsins til að uppfylla kröfur um landfræðilegan aðskilnað þeirra fyrirtækja og stofnana sem þurfa að velja varastaðsetningu fyrir stafræn gögn og tengingar. Það þýðir til að mynda að Akureyri og nágrenni gæti komið til greina sem varastaðsetning fyrir fjarskiptamiðstöðvar, neyðarmiðstöð almannavarna og þjóðfélagslega mikilvægar stofnanir, að því er fram kom í dag.
  • Breytingin mun að þeirra sögn gera Akureyri og Norðurlandjafn ákjósanlegri staðsetningu og suðvesturland fyrir fyrirtæki og stofnanir sem krefjast beins aðgengis að alþjóðlegum samskiptaleiðum. Nefnt var að þetta væri sérstaklega mikilvægt í uppbyggingu og rekstri gagnavera.