Fara í efni
Fjarskipti

Míla býður Akureyringum tífaldan nethraða – ný „netmiðja“ á Akureyri

Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Fjarskiptafyrirtækið Míla býður Akureyringum von bráðar tíföldun internethraða, eða svokallað 10X. Erik Figueras Torras, forstjóri Mílu, kynnti þetta á Akureyri í dag. Hann segir að með þessu sé fyrirtækið að bjóða sína bestu þjónustu í bæjarfélaginu, þjónustu sem felur í sér meiri hraða og betri upplifun notenda.

Samtímis var tilkynnt um samning Mílu og Farice, sem er eigandi sæstrengja milli Íslands og útlanda, um afhendingu á útlandssambandi til Mílu á Akureyri.

Í kjölfar samningsins mun Míla hefja uppbyggingu nýrrar fjarskiptamiðju fyrir netumferð til og frá Íslandi á Akureyri og Farice mun bæta Akureyri við sem nýjum afhendingarstað útlandaþjónustu.

Horfum fram á veginn

„Við þurfum að horfa fram á veg í uppbyggingu okkar fjarskiptainnviða bæði til fyrirtækja og heimila. Þörfin fyrir öflugri nettengingar heimila eykst hratt með hverju ári,“ segir forstjóri Mílu um tíföldun internethraðans. „Heimilum á Akureyri mun nú standa til boða gegnum fjarskiptafélög þeirra tenging með internethraða allt að 10 gígabita á sekúndu í báðar áttir. Það er tíföldun þess sem best þekkist í dag og er gríðarstórt stökk fyrir tengingar heimila,“ segir Erik.

Ekki fyrst suður!

Hingað til hafa tengistaðir netumferðar til og frá landinu einungis verið staðsettir á suðvesturhorni landsins. Öll netumferð til útlanda hvaðan sem er af landinu hefur þurft að eiga viðkomu þar á leið sinni á áfangastað. Allir netnotendur á landinu, til að mynda á Vestfjörðum, Norðurlandi og Austfjörðum, þurfa fyrst að tengjast til Reykjavíkur jafnvel þó til staðar sé sæstrengur nær notanda.

Ný „netmiðja“ á Akureyri breytir ýmsu, meðal annars þessu, að sögn samningsaðila:

  • Styttir þann tíma sem tekur notendur á Norðurlandi, Vestfjörðum og Austurlandi að tengjast útlöndum um Farice sæstrenginn.
  • Gagnaver og aðrir aðilar á Akureyri og nágrenni sem vilja kaupa sambönd beint til útlanda gegnum sæstrengi bera lægri kostnað vegna samtenginga innanlands.
  • Akureyri verður kjörstaður fyrirtækja, stofnana og almennings sem krefjast öryggis, greiðra samskiptaleiða og vilja dreifa áhættu með fjölbreyttu staðarvali. Það á ekki síst við um gagnaver á Norðurlandi.
  • Ný netmiðja á Akureyri eykur öryggi fjarskipta enda er bæjarfélagið á öðru jarðfræðilegu svæði og nægilega fjarlægt suðvesturhorni landsins til að uppfylla kröfur um landfræðilegan aðskilnað þeirra fyrirtækja og stofnana sem þurfa að velja varastaðsetningu fyrir stafræn gögn og tengingar. Það þýðir til að mynda að Akureyri og nágrenni gæti komið til greina sem varastaðsetning fyrir fjarskiptamiðstöðvar, neyðarmiðstöð almannavarna og þjóðfélagslega mikilvægar stofnanir.

Nánar á eftir