Jóhann Gunnar og Gísli Már fengu brons á EM
Tveir strákar úr Fimleikafélagi Akureyrar (FIMAK), Jóhann Gunnar Finnsson, 17 ára, og Gísli Már Þórðarson, 16 ára, voru í blönduðu unglingalandsliði Íslands sem lenti í þriðja sæti á Evrópumótinu í hópfimleikum í Portúgal á dögunum. Þeir komu því heim með bronsverðlaun í farteskinu.
„Báðir drengirnir eru í skýjunum með upplifunina og bronsið,“ segir á heimasíðu FIMAK. „Skemmtilegasta félagslíf sem ég hef komist í og frábær upplifun af stórmóti,“ er þar haft eftir Gísla. „Ekkert eðlilega gaman,“ bætir Jóhann við.
Skólarnir sýna mikinn skilning
Strákarnir, sem stunda báðir nám á Akureyri, hafa staðið í ströngu við undirbúning fyrir Evrópumótið en hafa mætt miklum skilningi hjá MA og VMA. Landsliðshópurinn var valinn í lok júní. Á heimasíðu FIMAK segir:
„Þeir hafa æft stíft síðan þá, og dvalið tölvert mikið fyrir sunnan. Þeir voru í æfingabúðum á Akranesi síðastliðið sumar. Í september og október voru langar æfingahelgar hjá strákunum fyrir sunnan. Þeir þurftu svo undir það síðasta að dvelja eingöngu fyrir sunnan, þar sem æft var fimm sinnum í viku, þrjár klukkustundir í senn. Jóhann stundar nám við raungreinabraut MA. Hann hefur þurft að stunda nám sitt í fjarnámi síðan í október. Báðir hafa mætt miklum skilningi hjá skólunum sínum, en Jóhann hefur tekið próf í Verslunarskólanum. Gísli Már er nemandi í VMA á vélstjórnarbraut og hefur honum alltaf tekist að mæta í verklegu hlutana, þrátt fyrir mikið æfingaálag, og þess utan verið duglegur að læra fyrir sunnan.“
Byrjaði mjög ungir
„Báðir eiga langan feril í áhaldafimleikum að baki lengst af undir stjórn þjálfarans Jan Bogodoi. Jóhann byrjaði rúmlega þriggja ára og Gísli fimm ára og þeir skiptu yfir í hópfimleika á þessu ári og æfðu undir stjórn Erlu Ormarsdóttir, skömmu síðar voru þeir valdir í landsliðið sem er hreint ótrúlega flottur árangur hjá þeim,“ segir á heimasíðu FIMAK. Þar segir að Evrópumótið var fyrsta hópfimleikamótið sem strákarnir tóku þátt í!
„Til gamans má geta að með þeim í landsliðinu er Hrafnhildur Tinna Brynjólfsdóttir sem hóf sinn fimleikaferil í áhaldafimleikum hjá FIMAK en skipti yfir í hópfimleika eftir að fjölskyldan fluttist til Danmerkur. Ekki má svo gleyma Evrópumeisturunum í kvennaliðum. Þar eigum við dálítið í Andreu Hansen sem æfði lengst af hjá FIMAK í áhaldafimleikum en skipti svo yfir í hópfimleika. Hún fluttist svo suður um 16 ára aldur til að geta stundað stífari æfingar í fimleikum sem hefur svo sannarlega skilað henni þeim árangri sem hún er að skila í dag.
Fimleikafélag Akureyrar er einstaklega stolt af strákunum og óskar þeim og öllum iðkendum sem fóru á mótið innilega til hamingju.“