Fara í efni
Ferðaþjónusta

Tvö tilboð í stækkun flugstöðvarinnar

Tvö tilboð bárust Isavia Innanlandsflugvöllum í viðbætur og breytingar á flugstöðinni á Akureyrarflugvelli. Það voru fyrirtækin Húsheild í Mývatnssveit og Hyrna á Akureyri sem sendu inn tilboð, og voru þau opnuð í gær; tilboð Húsheildar hljóðar upp á tæpar 865 milljónir króna en tilboð Hyrnu upp á rúmar 810 milljónir króna. 

Verkefnið felur í sér viðbyggingu við núverandi flugstöð og breytingu á núverandi húsnæði og nánasta umhverfi. Fyrsta skóflustunga að viðbyggingunni var tekin í júní síðastliðnum.

„Nú verður farið ítarlega yfir þessi tvö tilboð sem bárust,“ segir Sigrún Björk Jakobsdóttir, framkvæmdastjóri Isavia Innanlandsflugvalla. „Verkefnið sem hér um ræðir er 1.100 fermetra viðbygging við flugstöðina með góðri aðstöðu fyrir toll og lögreglu, fríhöfn og veitingastað. Áætlað er að heildarverkefninu verið lokið síðsumars 2023.“

Eina tilboðinu hafnað

Verkið var áður boðið út fyrr á árinu en eina tilboðinu sem barst var hafnað. Húsheild bauð þá rúmar 910 milljónir króna í verkið, en það var mun hærra en kostnaðaráætlun Mannvits gerði ráð fyrir, að sögn Sigrúnar Bjarkar. „Verktakar höfðu ýmsar athugasemdir við útboðsgögnin, fannst við setja ströng skilyrði á margan hátt,“ sagði Sigrún við Akureyri.net  í byrjun september, þegar ákveðið var að bjóða verkið út aftur.