Fara í efni
Ferðaþjónusta

Bjóða þarf Bretum upp á fleira en norðurljós

Það er víðar hægt að sjá norðurljósin en á Íslandi. Akureyri keppir m.a. við Tromsø um ferðamenn að vetrarlagi en easyJet er líka með beint flug þangað frá Manchester. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Akureyri keppir við Tromsø í Noregi um vetrargesti með easyJet og lokka þarf Breta til Akureyrar með fleiru en norðurljósum. Þetta var meðal þess sem kom fram á ráðstefnunni Flug til framtíðar sem fram fór í Hofi á mánudag.

Ráðstefnan var haldin á vegum Markaðsstofu Norðurlands en þar var rætt um millilandaflug um Akureyrarflugvöll, áhrif þess á ferðaþjónustu og samfélagið, auk þess sem rætt var um uppbyggingu flugvallarins. Á ráðstefnunni kom ýmislegt áhugavert fram en meðal fyrirlesara voru Sigrún Björk Jakobsdóttir, framkvæmdastjóri Isavia Innanlandsflugvalla ehf, Wietse Dijkstra, vöru- og áfangastaðahönnuður hjá Arctic Tourism, Clive Stacey framkvæmdastjóri Discover the World og Andrea Godfrey yfirmaður Regent Holidays. Einnig voru pallborðsumræður í lok ráðstefnunnar með frambjóðendum sex efstu flokka samkvæmt nýjustu könnunum þar sem þeir ræddu sínar áherslur í ferðamálum.  Þá tilkynnti flugfélagið easyJet breytingar á flugáætlun sinni á ráðstefnunni  en flugfélagið ætlar að byrja vetrarflug sitt í október næsta haust í stað nóvember, eins og Akureyri.net greindi frá. Þá mun félagið fljúga út apríl mánuð til London Gatwick í vetur í stað út mars eins og áður hafði verið auglýst. 

 

Tromsø veitir Akureyri harða samkeppni

Að sögn Chris Hagan, fulltrúa Norðurlands á Bretlandsmarkaði, sem var einn af fyrirlesurunum á ráðstefnunni er ferðaþróunin í Bretlandi sú að 48% Breta vilja fara í sólarfrí og 43% í borgarferðir. Akureyri fellur í seinni hópinn en hins vegar hafa Bretar um mikið úrval að velja af styttri borgarferðum og er Akureyri því  í samkeppni við fjölda aðra áfangastaði.

Chris sagði að á sama tíma og beint flug hófst á milli Manchester og Akureyrar hafi easyJet einnig hafið flug til Tromsø í Noregi. Benti Chris á að þar sem Akureyri og Tromsø byðu upp á svipaða hluti, norðurljós, vetrarsport og jólasveina þá væru staðirnir vissulega í samkeppni um vetrargestina frá Bretlandi. Sagði Chris að Tromsø væri að eyða hundruðum þúsundum punda í markaðssetningu og ætluðu sér sannarlega að fá sinn skerf af kökunni hvað vetrarferðamennskuna varðar. Þá sýndi Chris gestum ráðstefnunnar mjög fallegar norðurljósamyndir sem teknar voru á Norður Bretlandi að vori til. Dró hann þessar myndir fram til þess að sýna að almenningur í Bretlandi getur vel séð norðurljósin í sínu heimalandi svo það þarf að lokka Bretana til Akureyrar með einhverju fleiru en bara norðurljósaloforðum. 

Chris Hagen vinnur að því að kynna Norðurland sem áfangastað í Bretlandi. 

Beinar skatttekjur 80 milljónir

Jón Þorvaldur Heiðarsson, lektor við Háskólann á Akureyri fór yfir ýmsar áhugaverðar tölur í fyrirlestri sínum á ráðstefnunni er tengjast hvaða  áhrif millilandaflugvöllurinn hefur haft bæði efnahagslega og í tengslum við lífsgæði íbúa fyrir norðan. Tölurnar voru úr glænýrri rannsókn sem unnin var að beiðni Flugþróunarsjóðs.

Nefndi Jón Þorvaldur t.d. að áætlað er að þeir 3045 farþegar sem hófu ferðalagið með easyJet á Akureyri síðasta vetur hafi sparað 27 milljónir króna í eldsneyti við það að sleppa að keyra á milli Akureyrar og Keflavíkur. Þannig spöruðust 1500 bílferðir, um 1,3 milljóna kílómetra akstur, og 220 tonn af útblæstri CO – koltvísýrings – á bruna á 90.000 lítra eldsneytis.

Lilja Alfreðsdóttir, menningar-, viðskipta-, og ferðamálaráðherra hélt einnig erindi í upphafi ráðstefnunnar og fór yfir tölur úr óbirtri efnahagsgreiningu. Sagði hún m.a. að millilandaflugið hefði haft veruleg jákvæð áhrif á ferðaþjónustu og samfélagið fyrir norðan. „Við létum gera efnahagsgreiningu á því hvernig þetta væri að koma hér út og það er skemmst frá því að segja flugþróunarsjóður hefur verið að setja svona 75 milljónir í markaðssetningu með Markaðsstofu Norðurlands og Flugklasanum og öðrum stuðningi hér. Og það kemur í ljós að áhrifin inn á þetta svæði er tæpur hálfur milljarður. Beinar skatttekjur eru 80 milljónir og landsframleiðsla er að aukast um 230 milljónir, “  sagði Lilja í sínum fyrirlestri. 

Ráðstefnan var sýnd í streymi og er hægt að horfa á hana í heild sinni á HÉR