Fara í efni
Ferðaþjónusta

Stofnframlag staðfest vegna 28 íbúða Bjargs

Loftmynd af Móahverfi frá því fyrr í sumar. Mynd: Helgi Steinar Halldórsson.

Bæjarráð staðfesti fyrr í mánuðinum stofnframlag Akureyrarbæjar vegna byggingar félagslegra leiguíbúða á vegum Bjargs íbúðafélags í Langamóa 1-3 og 13-15. Stofnvirði íbúðanna er tæplega 1,6 milljarðar króna, en bæði Akureyrarbær og ríkisvaldið leggja fram stofnframlag vegna verkefnisins. Uppbygging Bjargs í Langamóa er samvinnuverkefni bæjarins og Bjargs.

Skipulag gerði ráð fyrir 28 íbúðum á umræddum lóðum. Bjarg óskaði eftir að fjölga um fjórar, en skipulagsráð Akureyrarbæjar hafnaði þeirri beiðni í júní. Fulltrúar minnihlutans í skipulagsráði og bæjarráði telja að eðlilegt hefði verið að fjölga íbúðunum í 32.

Vildu fjölga og bæta nýtingu

Bjarg íbúðafélag hafði óskað eftir fjölgun íbúða á áðurnefndum lóðum um fjórar, eða eina íbúð í hverju húsi. Samkvæmt skipulagi er gert ráð fyrir að íbúðir við Langamóa 1-3 verði að hámarki átta í hvoru húsi og allt að 800 fermetrar, en að hámarki sex íbúðir í hvoru húsi og allt að 600 fermetrar í Langamóa 13-15.

Í upphaflegri beiðni Bjargs um fjölgun íbúða frá 29. maí kemur fram að meðalbrúttóstærð íbúða Bjargs sé um 88 fermetrar og því væri mögulegt að byggja 32 íbúðir á áðurnefndum lóðum, en þar sem skipulagið heimili aðeins 28 íbúðir muni 350 fermetrar standa eftir ónýttir.


Ásýnd hússins að Langamóa 1 eins og hún kemur fram í umsókn Bjargs íbúðafélags um fjölgun íbúða.

„Bjarg getur ekki stækkað íbúðirnar þar sem það hefur áhrif á hagkvæmni/leiguverð. Það er sóun að fullnýta ekki byggingarrétt og full þörf fyrir fjórar hagkvæmar íbúðir til viðbótar á leigumarkað fyrir tekjulægri. Þá hefur Bjarg ekki svigrúm í byggingarkostnaði til að greiða gatnagerðargjöld af 350 ónýttum fermetrum," segir meðal annars í beiðninni.

Samvinnuverkefni Bjargs og bæjarins

„Uppbygging Bjargs í Langamóa er samvinnuverkefni Bjargs og Akureyrarbæjar sem leggur umtalsvert fjármagn í verkefnið. Mikilvægt er að Bjarg og Akureyri vinni saman að því að ná markmiðum verkefnisins varðandi hámarks hagkvæmni sem er forsenda þess að útvega íbúðir á viðráðanlegu leiguverði fyrir þann hóp sem Bjarg þjónustar. Íbúðir Bjargs falla undir skilgreiningu á félagslegu húsnæði og er því sveitarfélögum heimilt að viðhafa sérstakar ráðstafanir í skipulagsmálum til að ná fram þeirri hagkvæmni,“ segir einnig í rökstuðningi Bjargs.


Loftkort af Móahverfi. Rauðu kassarnir sýna um það bil hvar Bjarg íbúðafélag hyggst reisa hús með samtals 28 íbúðum. Skjáskot af map.is/akureyri.

Þá er einnig bent á það í umsókn Bjargs að fyrir liggi álit Evrópusambandsins vegna þessa og er vísað til þess að Reykjavíkurborg, Hafnarfjörður og Mosfellsbær hafi vísað til þessa álits þegar breytingar hafa verið gerðar á skipulagsskilmálum vegna íbúða Bjargs, til að þær breytingar verði ekki fordæmisgefandi fyrir önnur verkefni í sama hverfi. Á þeim forsendum hafi til að mynda íbúðum verið fjölgað, veitt svigrúm í bílastæðamálum og heimilað einfaldara form húsa.

Beiðni Bjargs um að skipulagsráð endurskoðaði fyrri ákvörðun var hafnað á fundi skipulagsráðs 10. júlí, en ráðið samþykkti að minnka nýtingarhlutfall lóðanna í samráði við Bjarg íbúðafélag.

Minnihlutinn vildi fjölga

Sóley Björk Stefánsdóttir (V), Jón Hjaltason, óháður, og Sunna Hlín Jóhannesdóttir (B) bókuðu við afgreiðslu skipulagsráðs í júlí að þau teldu góð rök færð fyrir því að fallast á beiðnina og hagsmunir Akureyrarbæjar lægju í því að félagslegar íbúðir á vegum félagsins verði fleiri.

Sunna Hlín (B), Hilda Jana Gísladóttir (S), Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir (V) og Jón Hjaltason óháður, bókuðu við afgreiðslu bæjarráðs við staðfestingu stofnframlagsins í sama anda og áður hafði verið bókað í skipulagsráði, kváðust telja heppilegra hefði verið hægt að samþykkja beiðni Bjargs íbúðafélags um 32 íbúðir í stað 28.