Fara í efni
Ferðaþjónusta

Hætta við breytingu skipulags Tónatraðar

Tónatröð eins og hún er – og verður?

Bæjarstjórn samþykkti með tíu samhljóða atkvæðum á fundi sínum í Hrísey nú síðdegis að draga til baka ákvörðun sína frá 7. febrúar 2023 um að kynna drög að deiliskipulagi og samsvarandi drög að breytingu aðalskipulags við Spítalaveg.

Skipulagsbreytingarnar sem hafa verið að veltast í höndum bæjaryfirvalda um hríð snúa að áformum og óskum SS Byggis um að reisa nokkur fjölbýlishús vestan Tónatraðar. Akureyri.net hefur fjallað um málið að undanförnu eftir að það var tekið fyrir í bæjarstjórn, vísað til bæjarráðs og þaðan vísað aftur til bæjarstjórnar.

Með þessari ákvörðun bæjarstjórnar í dag er farið að tillögu sem Sunna Hlín Jóhannesdóttir (B) lagði fyrir bæjarstjórnarfund 1. október, um að draga tilbaka ákvörðunina frá 7. febrúar í fyrra um að kynna drög að breyttu skipulagi. Tillaga hennar var felld á fundinum 1. október með sex atkvæðum meirihlutaflokkanna gegn fjórum.

Í stað þess að draga fyrri ákvörðun bæjarstjórnar til baka lagði meirihluti bæjarstjórnar fram tillögu á fundinum 1. október um að vísa málinu til bæjarráðs, í ljósi þess hve langur tími var liðinn frá ákvörðun meirihluta bæjarstjórnar um að vinna að breytingu á deiliskipulagi við Tónatröð án árangurs, fól bæjarráði að fara yfir fjárhagshliðina á verkefninu og taka ákvörðun um framhaldið. Sú tillaga var samþykkt með atkvæðum sex bæjarfulltrúa meirihlutans gegn fjórum. Bæjarráð fjallaði um málið 24. október og vísaði því aftur til bæjarstjórnar til ákvörðunar.


Óvenju margir fylgdust með fundi bæjarstjórnar 7. febrúar 2023 þegar ákvörðunin um að kynna drög að breytingum á skipulagi við Spítalaveg/Tónatröð, sem nú hefur verið dregin til baka, var tekin. Eflaust eru fundargestir á þessari mynd ánægðir með ákvörðun bæjarstjórnar í dag. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Nú liggur ákvörðun bæjarstjórnar fyrir, það er að draga til baka ákvörðunina frá 7. febrúar í fyrra um að kynna drög að breyttu skipulagi. 

Tillagan sem samþykkt var á bæjarstjórnarfundi nú síðdegis hljómar svo:

Bæjarstjórn dregur til baka ákvörðun sína frá 7. febrúar 2023 þar sem samþykkt var að kynna drög að deiliskipulagi skv. 4. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og samsvarandi drög að breytingu aðalskipulags við Spítalaveg.

Jón Hjaltason (óháður) lýsti sig vanhæfan til að fjalla um málið, eins og hann hefur gert á fyrri stigum þess, vegna tengsla við eiganda SS Byggis.