Fara í efni
Ferðaþjónusta

Ný flugstöð í notkun 2023 - skóflustunga í dag

Hjördís Þórhallsdóttir, flugvallarstjóri á Akureyri, Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og Sigrún Björk Jakobsdóttir, framkvæmdastjóri Isavia innanlandsflugvalla. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Fyrsta skóflustunga að nýrri flugstöðvarbyggingu á Akureyrarflugvelli var tekin eftir hádegi. Sigurður Ingi Jóhannesson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, settist upp í forláta gröfu og sá um þetta tímamótaverk.

„Við stöndum nú á merkum tímamótum. Við reisum hér nýja flugstöðvarbyggingu sem getur þjónað millilandaflugi - og höfum tryggt fjármagn fyrir nýtt flughlað á Akureyrarflugvelli. Við byggjum á góðum grunni og fjárfestum til framtíðar. Og þetta er réttur tími því það skiptir miklu máli fyrir Norður- og Austurland að skapa ný tækifæri í ferðaþjónustu á svæðinu, nú þegar áhrif plágunnar fara minnkandi,“ sagði ráðherra meðal annars við þetta tækifæri.

„Ég hef í ráðherratíð minni lagt mikla áherslu á að efla innanlandsflug og að fjölga fluggáttum inn í landið – til að efla ferðaþjónustu um land allt. Óhætt er að fullyrða við höfum stigið stór og mikilvæg skref í flugmálum á kjörtímabilinu.

Alþingi samþykkti á kjörtímabilinu fyrstu flugstefnu Íslands – í rúmlega hundrað ára sögu flugs á Íslandi – en í henni er m.a. sérstaklega kveðið á um að fjölga fluggáttum inn til landsins til að dreifa ferðafólki um landið í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.

Fjármagn var tryggt fyrir flugstöðvarbyggingu og flughlað hér á Akureyri í samgönguáætlun fyrir tímabilið 2020 til 2024. Í þeirri áætlun er einnig gert ráð fyrir mikilvægum endurbótum á akbraut á Egilsstaðaflugvelli. Hvort tveggja eflir flugið á Norðurlandi og Austurlandi til mikilla muna,“ Sigurður Ingi.

Flugstöðin nýja – stór viðbygging við þá gömlu – verður tekin í notkun vorið 2023, að sögn Sigrúnar Bjarkar Jakobsdóttur, framkvæmdastjóra Isavia innanlandsflugvalla.

Sigurður Ingi Jóhannsson tekur fyrstu skóflustungu að flugstöðvarbyggingunni í dag. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.