Fara í efni
Ferðaþjónusta

Chris Hagan kynnir Norðurland í Bretlandi

Chris Hagan á kynningarfundi á Akureyri. Mynd af vef Markaðsstofu Norðurlands.

Chris Hagan hefur verið ráðinn tímabundið til að kynna Norðurland sem áfangastað fyrir breskan markað og sérstaklega í tengslum við flug easyJet. Verkefnið er hluti af samstarfi Markaðsstofu Norðurlands, Íslandsstofu, Isavia og Austurbrúar í verkefninu Nature Direct.

Greint er frá þessu á vef Markaðsstofu Norðurlands.

Hagan „er norðlenskri ferðaþjónustu vel kunnugur en Chris sá um ferðir bresku ferðaskrifstofunnar Super Break til Akureyrar frá 2018-2019, sem hlutu frábærar viðtökur og gengu vel allt þar til móðurfélag Super Break fór í þrot. Hann stýrir nú sjálfur sinni eigin ferðaskrifstofu í Bretlandi en samanlagt hefur hann yfir 25 ára reynslu í ferðaþjónustu, ráðgjöf til flugfélaga og ferðamálastofa víðsvegar um heiminn,“ segir í tilkynningu á vef Markaðsstofunnar.

Tengslin við Norðurland eru afar sterk og Chris hefur verið reglulegur gestur hér á undanförnum árum. Tengsl hans við breskan markað munu nýtast afar vel og hefur hann nú þegar hafist handa við að kynna áfangastaðinn.